Til umsagnar
22.10.–12.11.2024
Í vinnslu
Samráði lokið
Mál nr. S-220/2024
Birt: 22.10.2024
Fjöldi umsagna: 0
Drög að stefnu
Heilbrigðisráðuneytið
Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála
Heilbrigðisráðuneytið kynnir til umsagnar drög að tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í krabbameinsmálum fyrir árin 2025–2029.
Þingsályktunartillaga þessi er samin í heilbrigðisráðuneytinu og er unnin upp úr skýrslu starfshóps um krabbameinsmál sem skilaði heilbrigðisráðherra tillögu að aðgerðaáætlun til fimm ára í krabbameinsmálum hinn 20. júní 2024.
Hérlendis greinast að meðaltali 1.700–1.800 manns með krabbamein á hverju ári og er krabbamein algengasta orsök dauðsfalla á Íslandi. Krabbamein snertir okkur öll, þar sem einn af hverjum þremur Íslendingum getur vænst þess að greinast með krabbamein á lífsleiðinni. Spáð er mikilli aukningu á nýgreiningum krabbameina á heimsvísu vegna mannfjöldabreytinga, hækkandi meðalaldurs og hækkandi krabbameinsáhættu. Í nýlegri spá fyrir Ísland er áætlað að fjöldi nýrra krabbameinstilfella frá árinu 2022 muni aukast um 53–57% til ársins 2040 og að lifendum, þ.e. fólki sem er á lífi og hefur fengið krabbamein, fjölgi um 54% til ársins 2040. Þessi fyrirséða fjölgun krabbameinssjúklinga og bætt lifun munu auka álag á heilbrigðiskerfið sem brýnt er að bregðast við. Stærstu áskoranirnar í krabbameinsþjónustu á Íslandi eru þar að leiðandi fjölgun nýrra krabbameinstilfella ásamt fjölgun þeirra sem eru í meðferð á hverjum tíma og þeirra sem lokið hafa meðferð en glíma við langvinna fylgikvilla.
Ályktunin nær til áranna 2025–2029 og er skipt í sex kafla sem innihalda 16 aðgerðir. Sameiginleg markmið þeirra aðgerða sem lagðar eru til lúta að því að árangur hér á landi verði eins og best gerist á hinum Norðurlöndunum. Því markmiði verði m.a. náð með því að leggja áherslu á markvissar forvarnir gegn helstu áhættuþáttum krabbameina, skimun og snemmgreiningu meina, veita heildstæða krabbameinsþjónustu samkvæmt stöðluðum greiningar- og meðferðarferlum, tryggja jöfnuð í aðgengi að krabbameinsþjónustu óháð búsetu, uppruna og samfélagsstöðu og tryggja gæðastýrða krabbameinsþjónustu með notkun gæða- og árangursvísa.
Umsagnir eru birtar jafnóðum og þær berast.
Skrifstofa lýðheilsu og vísinda
hrn@hrn.is