Til umsagnar
22.10.–12.11.2024
Í vinnslu
Samráði lokið
Mál nr. S-219/2024
Birt: 22.10.2024
Fjöldi umsagna: 0
Drög að frumvarpi til laga
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið
Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið kynnir til samráðs drög að frumvarpi til laga um opinberan stuðning við vísindi og nýsköpun.
Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný heildarlög um opinbera samkeppnissjóði á sviði vísinda og nýsköpunar sem heyra undir ráðuneytið ásamt því að hlutverk Rannsóknamiðstöðvar Íslands í stuðningsumhverfi þekkingarsamfélagsins verði skilgreint.
Meginmarkmið lagasetningarinnar er fjórþætt: Í fyrsta lagi að einfalda núverandi sjóðaumhverfi vísinda og nýsköpunar, fækka sjóðum og minnka umsýslukostnað með því að færa sjóði undir sömu lög og samræma stjórnsýslu eins og unnt er. Í öðru lagi að aðgreina sjóði til grunnrannsókna og grunnnýsköpunar með skýrari hætti frá þeim sjóði sem tekur áherslum stjórnvalda og miðar að því að leysa skilgreindar áskoranir. Í þriðja lagi að lögfesta árangurs- og áhrifamat á sjóðunum til að tryggja að þeir skili þeim árangri sem ætlað er og efli íslenskt þekkingarsamfélag og samkeppnishæfni. Í fjórða lagi að uppfæra lagalegt hlutverk Rannsóknamiðstöðvar Íslands í samræmi við núverandi verkefni stofnunarinnar.
Í frumvarpinu er lagt til að þeir átta sjóðir sem ráðuneytið hefur starfrækt; Rannsóknasjóður, Tækniþróunarsjóður, Innviðasjóður, Markáætlun á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar, Starfslaunasjóður sjálfstætt starfandi fræðimanna, Nýsköpunarsjóður námsmanna, Lóa nýsköpunarstyrkir og Fléttan nýsköpunarstyrkir verði að Vísindasjóði, Nýsköpunarsjóði og Áherslusjóði. Sjóðirnir verða allir tengdir við áherslur og stefnu ráðherranefndar um vísindi og nýsköpun en útfærsla er að öðru leyti sett í hendur stjórn sjóðanna. Gert er ráð fyrir að tveir sjóðanna, Vísindasjóður og Nýsköpunarsjóður, verði opnir en sá þriðji, Áherslusjóður, verði háður áherslum.
Vísindasjóði er ætlað að styðja við grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir. Um er að ræða opinn sjóð sem felur í sér sameiningu Rannsóknarsjóðs, Innviðasjóðs og Starfslaunasjóðs sjálfstætt starfandi fræðimanna. Einnig tekur sjóðurinn við fjármögnun hagnýtra rannsóknaverkefna sem hafa verið styrkt í gegnum Tækniþróunarsjóð undanfarin ár. Mælst er til að stjórn sjóðsins hafi stefnu ráðherranefndar um vísindi og nýsköpun að leiðarljósi við útfærslu auglýsinga og sýni frumkvæði að breytingu áherslna eftir þörfum íslensks vísindasamfélags.
Nýsköpunarsjóði er ætlað að styðja við nýsköpun á öllum sviðum. Sjóðurinn byggir á sameiningu Tækniþróunarsjóðs og Nýsköpunarsjóðs námsmanna þar sem áherslan er á hvers kyns nýsköpun og hagnýtingu þekkingar með því markmiði að styðja við verkefni sem hafa langtímaávinning fyrir íslenskt atvinnulíf. Stefnt er að því að sjóðurinn hafi breiðari skírskotun en Tækniþróunarsjóður hefur gert og höfði til stærri markhóps. Nýsköpunarsjóði verður falið að fjármagna nýsköpunarverkefni fyrirtækja og einstaklinga og leggja áherslu á verkefni sprotafyrirtækja sem eru á upphafsreit. Sjóðurinn mun einnig fjármagna nýsköpunarverkefni námsmanna og skapa þar vettvang fyrir minni verkefni sem þó geta skilað miklu til lengri tíma þar sem námsmenn fá tækifæri til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd undir leiðsögn reyndari aðila.
Áherslusjóður miðar að því að leysa samfélagslegar áskoranir með aðferðum vísinda og nýsköpunar og í samstarfi við fjölbreytta aðila. Sjóðurinn leysir þar af hólmi Markáætlun á sviði vísinda, nýsköpunar og tækni, Lóu nýsköpunarstyrki fyrir landsbyggðina og Fléttuna sem hefur stutt við nýsköpun í heilbrigðiskerfinu. Sjóðurinn verður samstarfsvettvangur stjórnvalda þvert á málefnasvið til að, með reglubundnum hætti, skapa nýja hagnýta þekkingu samfélaginu til góðs. Mikil áhersla er lögð á samstarf háskóla, rannsóknastofnana, fyrirtækja og fleiri aðila til að efla þekkingu og skapa nýjar lausnir. Sjóðurinn styður þannig við áhersluverkefni á sviði vísinda og nýsköpunar óháð málefnasviðum. Sjóðurinn mun einnig fjármagna þátttöku Íslands í alþjóðlegum samfjármögnunaráætlunum.
Samhliða breytingum á samkeppnissjóðum verður hlutverki og nafni Rannsóknamiðstöðvar Íslands breytt þannig að þau endurspegli raunveruleg verkefni stofnunarinnar. Engar breytingar hafa verið gerðar á hlutverki stofnunarinnar frá setningu laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003. Frá þeim tíma hafa aftur á móti umfangsmiklar breytingar átt sér stað á starfsemi stofnunarinnar og endurspeglar gildandi löggjöf ekki hin víðfeðmu og fjölbreyttu verkefni sem stofnunin sinnir í dag. Lagt er til að stofnunin fái nafnið Rannís – Þjónustumiðstöð þekkingarsamfélagsins og að hlutverk stofnunarinnar verði skilgreint á breiðari grundvelli en áður sem þjónustu- og umsýslustofnun opinberra samkeppnis- og réttindasjóða. Það endurspeglar stærsta hlutverk hennar í dag og eykur möguleika á að stofnunin sinni faglegri þjónustu við fleiri sjóði og alþjóðlegar áætlanir óháð málefnasviðum ásamt öflugri miðlun á tækifærum, á viðeigandi hátt. Tengt því hlutverki safnar stofnunin mikilvægum gögnum sem nýta má til greiningar og áhrifamats ásamt eftirfylgni með opinberum fjárveitingum.
Umsagnir eru birtar jafnóðum og þær berast.
Skrifstofa stefnumörkunar og alþjóðasamskipta
hvin@hvin.is