Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 18.10.–1.11.2024

2

Í vinnslu

  • 2.11.2024–

Samráði lokið

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-218/2024

Birt: 18.10.2024

Fjöldi umsagna: 1

Drög að stefnu

Heilbrigðisráðuneytið

Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála

Drög að tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis fyrir árin 2025-2029

Málsefni

Heilbrigðisráðuneytið kynnir til umsagnar drög að tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis fyrir árin 2025-2029.

Nánari upplýsingar

Þverfaglegur starfshópur heilbrigðisráðuneytis, matvælaráðuneytis og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis var skipaður í desember 2022 og var falið að koma með tillögur að aðgerðaáætlun gegn sýklalyfjaónæmi. Starfshópurinn skilaði tillögum að fimm ára aðgerðaáætlun í janúar 2024. Tillögurnar hafa verið samþykktar sem aðgerðaáætlun stjórnvalda en áætlað er að leggja fyrir Alþingi að samþykkja aðgerðaráætlunina einnig.

Sýklalyfjaónæmi er vaxandi alþjóðlegt vandamál og ein stærsta heilbrigðisógn sem heimurinn stendur frammi fyrir. Sú hætta er raunveruleg að í náinni framtíð verði ekki hægt að meðhöndla einfaldar og alvarlegar sýkingar með sýklalyfjum. Slík staða myndi hafa gríðarlega alvarlegar heilsufars- og efnahagslegar afleiðingar fyrir þjóðir heims. Þótt sýklalyfjaónæmi sé ekki eins stórt vandamál hér á landi og í mörgum öðrum löndum, fer vandinn vaxandi hér sem annars staðar. Baráttan gegn sýklalyfjaónæmi krefst alþjóðlegrar samvinnu, því ónæmar bakteríur dreifast milli landa og virða engin landamæri. Alþjóðlegar stofnanir hafa undanfarið bent á hættuna af völdum sýklalyfjaónæmra baktería og hvatt til aðgerða til að sporna gegn útbreiðslu þeirra áður en það verður of seint.

Þar sem orsakir sýklalyfjaónæmis eru margar og samverkandi, hvetja alþjóðlegar stofnanir til þess að aðgerðaáætlanir þjóða byggi á nálgun „einnar heilsu“ (e. One Health) sem þýðir að aðgerðir þurfa að beinast að mönnum, dýrum, matvælum og umhverfi þar sem rætur vandans liggja. Aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda er unnin á þeim grunni og hefur því snertifleti við málaflokka á valdsviði ráðherranna þriggja sem hafa staðfest hana. Áætlunin nær til áranna 2025-2029 og inniheldur sex aðgerðir sem fela í sér 24 markmið og 75 verkefni sem nauðsynlegt er að hrinda í framkvæmd. Verkefnunum er forgangsraðað og kostnaður af framkvæmd þeirra metinn. Aðgerðunum sem um ræðir er ætlað að stuðla að markvissri og skynsamlegri notkun sýklalyfja hjá mönnum og dýrum. Þungamiðja áætlunarinnar felur í sér verkefni sem miða að því að minnka og bæta notkun sýklalyfja, auka hreinlæti og koma í veg fyrir sýkingar með öðrum ráðum eins og bólusetningum. Nauðsynlegur þáttur í því er að upplýsa og um mikilvægi skynsamlegrar sýklalyfjanotkunar og mikilvægi sóttvarna.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Boð um þátttöku (0)

Umsjónaraðili

Skrifstofa lýðheilsu og vísinda

hrn@hrn.is