Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 16.–21.10.2024

Í vinnslu

Samráði lokið

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-215/2024

Birt: 16.10.2024

Fjöldi umsagna: 0

Drög að frumvarpi til laga

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla

Stuðningslán til rekstraraðila í Grindavík vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga

Málsefni

Lagt er til að ríkissjóður ábyrgist 90% af fjárhæð stuðningslána til minni rekstraraðila í Grindavík sem hafa orðið fyrir tekjufalli vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga.

Nánari upplýsingar

Með frumvarpinu er lagt til að ríkissjóður ábyrgist 90% stuðningslána sem fjármálastofnanir veiti rekstraraðilum sem stundað hafa atvinnustarfsemi í Grindavík og orðið fyrir verulegu tekjutapi vegna áhrifa jarðhræringa á Reykjanesskaga. Lánið má rekstraraðili einungis nýta til að standa undir rekstrarkostnaði eða til að byggja upp starfsemi á nýjum stað. Ráðherra mun gera samning við lánastofnanir um lánveitinguna og hvernig staðið verður að greiðslu ábyrgðar ríkissjóðs, ef til kemur. Úrræðið á sér samsvörun í stuðningslánum sem voru veitt rekstraraðilum vegna heimsfaraldurs kórónaveiru. Umfang þessa úrræðis er hins vegar líklegt til að vera talsvert minna og því er ráðgert að öll umsýsla og yfirbygging vegna þess verði einfaldari.

Í frumvarpinu er einnig fjallað um þau skilyrði sem rekstraraðilar þurfa að uppfylla til að fá stuðningslán með ríkisábyrgð. Þau eru eftirfarandi:

• Rekstraraðili hafi verið með fasta starfsstöð í Grindavík 10. nóvember 2023.

• Tekjur á rekstrarárinu 2022 hafi verið að lágmarki 15 millj. kr. og að hámarki 1.500 millj. kr. og að þær tekjur hafi dregist saman um 40% á einhverju 60 daga samfelldu tímabili eftir 10. nóvember 2023 til 10. október 2024.

• Rekstraraðili hafi ekki greitt út arð eða kaupauka, keypt eigin hlutabréf eða gert aðra sambærilega gerninga frá 10. nóvember 2023 út þann tíma sem ábyrgðar ríkissjóðs nýtur við.

• Rekstraraðili sé ekki í vanskilum með opinber gjöld eða skatta sem komin voru á eindaga fyrir 10. nóvember 2023.

Einnig er í frumvarpinu fjallað um fjárhæð stuðningsláns, sem getur numið allt að fimmtungi af tekjum rekstraraðila á rekstrarárinu 2022. Fjárhæð lánsins getur þó að hámarki numið 50 millj. kr. Vextir lánanna skuli jafnháir vöxtum af sjö daga bundnum innlánum hjá Seðlabanka Íslands hverju sinni og lánið skal endurgreiða með jöfnum greiðslum síðustu 36 mánuði lánstímans, en lánstíminn er að hámarki 72 mánuðir.

Viltu senda inn umsögn?

Umsagnir eru birtar jafnóðum og þær berast.

Boð um þátttöku (0)

Umsjónaraðili

Skrifstofa stjórnunar og umbóta

fjr@fjr.is