Til umsagnar
15.10.–12.11.2024
Í vinnslu
13.11.2024–19.5.2025
Samráði lokið
20.5.2025
Mál nr. S-211/2024
Birt: 15.10.2024
Fjöldi umsagna: 1
Drög að frumvarpi til laga
Heilbrigðisráðuneytið
Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa
Ein umsögn barst en ekki talið tilefni til að gera breytingar á frumvarpinu vegna hennar. Að mati ráðuneytisins er enn tilefni til að fella sjúkrahjálp undir almenna greiðsluþátttöku vegna heilbrigðisþjónustu og lyfja og vísast til umfjöllunar í frumvarpinu.
Í frumvarpinu er lagt til að fella brott 10. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga sem veitir rétt til sjúkrahjálpar.
Í 10. gr. laga um slysatryggingar almannatryggingar er réttur til svonefndrar sjúkrahjálpar. Valdi bótaskylt slys sjúkleika og vinnutjóni skal greiða nauðsynlegan kostnað vegna lækningar hins slasaða og tjóns á gervilimum eða hjálpartækjum, í samræmi við það sem tilgreint er í ákvæðinu. Læknishjálp, lyf, viðgerð vegna brots á tönnum og sjúkraþjálfun eru t.a.m. greidd að fullu, sem og gervilimir eða svipuð hjálpartæki.
Ákvæði um sjúkrahjálp hefur verið í löggjöf um almannatryggingar um áratugaskeið án þess að hafa sætt sérstakri endurskoðun. Í frumvarpinu er lagt til að sjúkrahjálp verði felld brott úr lögum um slysatryggingar almannatrygginga og að greiðsluþátttaka hins opinbera verði með sama hætti og gildir um aðra heilbrigðisþjónustu. Greiðsluþátttökukerfi hins opinbera í kostnaði við heilbrigðisþjónustu tekið miklum breytingum frá því að sjúkrahjálp var lögfest og greiða Sjúkratryggingar mikinn meirihluta kostnaðar við heilbrigðisþjónustu. Umsýsla Sjúkratrygginga við umsóknir um sjúkrahjálp er jafnframt tímafrek og flókin í ljósi þeirra takmörkuðu fjárhæða sem sjúkrahjálp veitir og með frumvarpinu leitast við að nýta með skilvirkari hætti starfskrafta stofnunarinnar.
Verði frumvarpið að lögum mun greiðsluþátttaka sjúkratryggðra, sem lenda í bótaskyldu slysi sem leiðir til óvinnufærni, verða sú sama og gildir samkvæmt viðeigandi reglugerðum. Fer þá um kostnað t.d. vegna sjúkraþjálfunar samkvæmt reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu (nú nr. 1551/2023), um styrki vegna kaupa á hjálpartækjum skv. reglugerð nr. 760/2021, kostnaði við tannlækningar skv. reglugerð nr. 766/2024 og svo framvegis.
Ef frumvarpið verður að lögum er áætlað að sú fjárhæð sem falli á sjúkratryggða verði í heild um 70 m.kr. á ári, en um 2000 umsóknir eru um sjúkrahjálp á ári. Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað hefur meirihluti sjúkratryggðra snertingu við greiðsluþátttökukerfið og þyrftu því að greiða lægri fjárhæð en hámarksgreiðslu skv. reglugerð nr. 1551/2023, sem nú er um 35 þús. kr. Á þetta t.d. við um einstaklinga sem þurfa að leita til sjúkraþjálfara í kjölfar slyss, þar sem sjúkraþjálfun fellur undir reglugerðina. Upplýsingar sem ráðuneytið hefur undir höndum bera með sér að um 20-30% einstaklinga þyrftu að greiða hámarksgreiðslu vegna þjónustu sem fellur undir almenna greiðsluþátttöku, þann mánuð sem þjónusta er veitt, þar sem þeir hafi ekki haft neina snertingu við greiðsluþátttökukerfið mánuðina fyrir slys. Eins og áður segir er kostnaðurinn 35 þús. kr. fyrsta mánuðinn en tæpar sex þús. kr. á mánuði eftir það en lægri fyrir aldraða og öryrkja.
Að því er varðar styrki vegna hjálpartækja þá eru styrkirnir ákveðnir í reglugerð, sbr. nú reglugerð nr. 760/2021. Styrkir eru ákveðnir sem hlutfall af kostnaði við hjálpartæki en t.a.m. er veittur 70% styrkur til kaupa á spelkum, sem geta kostað um 50 þús. kr. Greiðsluþátttaka vegna tannlækninga er nú ákveðin í reglugerð nr. 766/2024, en sjúkratryggingar greiða almennt 80% af kostnaði samkvæmt gjaldskrá við tannlækningar vegna alvarlegra afleiðinga slysa. Greiða sjúkratryggingar 95% kostnaðar nauðsynlegra tannlækninga og tannréttinga vegna alvarlegra afleiðinga slysa þar sem fjórar eða fleiri fullorðinstennur, framan við 12 ára jaxla, tapast eða sjúkratryggður verður fyrir öðrum sambærilegum alvarlegum skaða.
Að öðru leyti vísast til umfjöllunar í drögum að frumvarpi.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
hrn@hrn.is