Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 11.–25.10.2024

2

Í vinnslu

  • 26.10.2024–

Samráði lokið

Mál nr. S-208/2024

Birt: 11.10.2024

Fjöldi umsagna: 3

Drög að frumvarpi til laga

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Frumvarp til laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Málsefni

Frumvarpið felur í sér að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur í heild sinni hér á landi. Auðlesin útgáfa af frumvarpinu er birt í sérstöku skjali.

Nánari upplýsingar

Með frumvarpi þessu er lagt til að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) verði lögfestur í heild sinni. SRFF var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 13. desember 2006 og fullgiltur fyrir Íslands hönd í september 2016. Markmið samningsins er að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra og efla virðingu fyrir eðlislægri reisn þeirra.

Í júní 2019 samþykkti Alþingi þingsályktun um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sbr. þingsályktun nr. 33/149. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar kemur einnig fram að lögfesta skuli samninginn á kjörtímabilinu.

Til að koma réttindum SRFF betur í framkvæmd og undirbúa lögfestingu samningsins hófst vinna við gerð landsáætlunar um innleiðingu samningsins haustið 2022. Fyrsta landsáætlunin um innleiðingu SRFF var samþykkt á Alþingi í mars 2024 í formi framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024-2027, sbr. þingsályktun nr. 9/154. Í framkvæmdaáætluninni er m.a. að finna aðgerð um lögfestingu samningsins, sbr. aðgerð F.1.

Með frumvarpinu er lagt til að heildartexti samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks öðlist lagagild hér á landi. Samningurinn er birtur sem fylgiskjal með frumvarpinu.

Markmið frumvarpsins er að styrkja mannréttindi fatlaðs fólks og tryggja að fatlað fólk njóti til fulls allra mannréttinda og geti tekið virkan þátt í samfélaginu til jafns við aðra. Lögfestingin felur í sér að hægt verður að beita samningnum sem fullgildri réttarheimild hér á landi, til dæmis fyrir dómstólum og öðrum úrskurðaraðilum. Mun lögfestingin því auka réttaráhrif samningsins og auka vægi hans í íslenskri réttarframkvæmd.

Í SRFF má finna fjölmargar greinar sem miða að því að tryggja að fatlað fólk njóti í reynd allra mannréttinda sinna og gera þeim kleift að taka fullan og virkan þátt í samfélaginu til jafns við aðra. Samningurinn byggir á svokölluðu mannréttindasjónarhorni á fötlun, sem leggur áherslu siðferðilegu gildi sem búa að baki mannréttindum og rétt fatlaðs fólks til þess að njóta sömu mannréttinda og aðrir. Ekki er litið á fötlun sem „frávik“ heldur hluta af mannlegum fjölbreytileika.

Auk þess að lögfesta samninginn í heild sinni er stefnt að því að fullgilda valfrjálsa bókun við samninginn, sem felur í sér heimild fyrir einstaklinga eða hópa einstaklinga til að beina kvörtunum vegna brota á samningnum til nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Undirbúningur að fullgildingu bókunarinnar er þegar hafinn.

Auðlesin útgáfa af frumvarpinu er birt í sérstöku skjali.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Boð um þátttöku (6)

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Skrifstofa jafnréttis- og mannréttindamála

frn@frn.is