Til umsagnar
9.–23.10.2024
Í vinnslu
24.10.2024–
Samráði lokið
Mál nr. S-204/2024
Birt: 9.10.2024
Fjöldi umsagna: 9
Drög að reglugerð
Innviðaráðuneytið
Húsnæðis- og skipulagsmál
Innviðaráðuneytið kynnir til umsagnar drög að reglugerð um breytingu á byggingarreglugerð, nr. 112/2012, vegna ákvæða um ljósvist.
Með reglugerðardrögunum eru lagðar til breytingar á byggingarreglugerð, nr. 112/2012, sem eru helst þess efnis að við reglugerðina bætist nýr kafli 10.4 sem fjalli um ljósvist og útsýni.
Með breytingunum er lagt til að innleidd verði heildstæð umfjöllun um ljósvist í byggingarreglugerð enda er ljósvist mikilvæg út frá þeim hollustu- og gæðakröfum sem gerðar eru til mannvirkja, auk þess sem hún getur skipt miklu máli þegar huga á að vistvænni mannvirkjagerð. Í þessu sambandi er lagt til að hugtakið "ljósvist" verði innleitt og skilgreint í reglugerðinni sem og hugtakið "vistarverur".
Þá er lagt til að í hinum nýja kafla verði sett fram það markmið að þess skuli gætt að byggingar og önnur mannvirki hafi eðlileg tengsl við útivistarsvæði á lóð og staðsetning vistarvera taki mið af dagsbirtu og útsýni þannig að góðrar ljósvistar gæti í vistarverum. Mannvirki skuli þannig hönnuð og byggð að tekið sé tillit til þarfa allra aldurshópa vegna ljósvistar og að hún sé í fullu samræmi við þá starfsemi sem fari fram við eða innan mannvirkisins, án þess að óeðlilegur truflandi hiti eða óeðlileg glýjumyndun verði vegna raflýsingar.
Enn fremur er lagt til að í hinum nýja kafla um ljósvist og útsýni verði settar fram kröfur til raflýsingar, kröfur til daglýsingar í vistarverum, kröfur varðandi ljósmengun og kröfur um útsýni í vistarverum. Ákvæðunum er í fyrsta lagi ætlað að tryggja að raflýsing verði fullnægjandi í atvinnuhúsnæði sem og sameiginlegum rýmum fjölbýlishúsa, í öðru lagi að tryggja að í vistarverum verði fullnægjandi dagsljós, í þriðja lagi að við hönnun og uppsetningu á lýsingu verði komið í veg fyrir ljósmengun og tryggt að lýsing valdi nágrönnum ekki óþægindum eða trufli umferð utan lóðar (það eigi jafnframt við um gerð og uppsetningu upplýstra skilta, skjáa og merkingaa sem notuð eru fyrir auglýsingar) og í fjórða lagi að staðsetning glugga í vistarverum mannvirkja, útfærsla þeirra og afskermun tryggi útsýni í fullnægjandi hluta rýmis.
Reglugerðardrögin byggja á tillögum samráðshóps að nýjum ákvæðum um ljósvist og er liður í aðgerðum stjórnvalda samkvæmt þingsályktun um húsnæðisstefnu fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028 sem samþykkt var á Alþingi í júní síðastliðnum. Er þar lögð áhersla á að grunngæði íbúðarhúsnæðis verði höfð að leiðarljósi í allri hönnun, þar á meðal dagsbirta.
Gert er ráð fyrir að reglugerðin öðlist gildi 1. mars nk.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa húsnæðis- og skipulagsmála
irn@irn.is