Til umsagnar
22.10.–22.11.2024
Í vinnslu
23.11.2024–
Samráði lokið
Mál nr. S-202/2024
Birt: 22.10.2024
Fjöldi umsagna: 3
Stöðumat og valkostir
Menningar- og viðskiptaráðuneytið
Markaðseftirlit og neytendamál
Skýrsla með tillögum starfshóps um valkosti og næstu skref varðandi úrvinnslu tillagna að lagabreytingum á sviði fasteignakaupa til að efla réttaröryggi í fasteignaviðskiptum og neytendavernd.
Í lok árs 2022 skipaði menningar- og viðskiptaráðherra starfshóp sem falið var að bregðast við efni þingsályktunar nr. 23/151, um ástandsskýrslur fasteigna, og móta tillögur til breytinga á viðeigandi lögum um fasteignakaup í samræmi við efni þingsályktunarinnar. Starfshópinn skipuðu fulltrúar frá menningar- og viðskiptaráðuneyti, Neytendasamtökunum, Samtökum iðnaðarins, Húseigendafélaginu og Félagi fasteignasala. Einn fulltrúi, sem jafnframt er formaður hópsins, var skipaður af ráðherra án tilnefningar.
Nú er kynnt í Samráðsgátt stjórnvalda, til umsagnar, skýrsla starfshópsins um valkosti og næstu skref varðandi úrvinnslu tillagna að lagabreytingum á sviði fasteignakaupa til að efla réttaröryggi í fasteignaviðskiptum og neytendavernd.
Hefur starfshópnum þótt rétt að áfangaskipta vinnu sinni og þeim breytingum sem lagðar eru til, og hefur einblínt á að fjalla um ástandsskoðun fasteigna, framkvæmd þeirra, upplýsingagjöf við sölu fasteigna og hvernig bregðast skuli við göllum sem fram koma við ástandsskoðun fasteigna.
Í skýrslu starfshópsins kemur fram að starfshópurinn leggur fyrst og fremst til tvíþætta breytingu á réttarstöðu við fasteignakaup.
Í fyrsta lagi að auka skyldu seljanda til upplýsingagjafar um ástand fasteignar sem hann býður til sölu, með því að gera að lagaskyldu að seljandi fylli út og undirriti spurningalista með stöðluðum spurningum um ástand og viðhald fasteignar.
Í öðru lagi að lögfest verði heimild í lög um fasteignakaup, nr. 40/2002, um að kaupandi fasteignar geti, innan 48 klst. frá því að samþykki kauptilboðs kemst til vitundar hans, óskað eftir því að fram fari ástandsskoðun á þeirri fasteign sem um ræðir.
Telur starfshópurinn að eðlileg afleiðing þeirra nýmæla sem hér eru lögð til verði ríkari leiðbeiningarskylda af hálfu fasteignasala við sölu fasteignar, bæði varðandi veitingu upplýsinga til seljenda um þýðingu slíkrar upplýsingagjafar og til kaupanda með ráðleggingum um heimildina til að óska eftir ástandsskoðun fasteignar í samræmi við útfyllingu slíks spurningalista af hálfu seljanda fasteignar. Með því móti telur starfshópurinn að fasteignasölum verði gert auðveldara að gæta hagsmuna bæði kaupanda og seljanda í fasteignaviðskiptum.
Önnur afleiðing verður sú að tryggt verður að betri upplýsingar liggi fyrir um ástand fasteignar, með tilheyrandi fækkun á ágreiningsmálum í kjölfar sölu á íbúðarhúsnæði, enda aukast líkurnar þá eðli málsins samkvæmt á hnökralausum fasteignaviðskiptum og meiri líkur verða á að mögulegir gallar á fasteign verði leiddir í ljós á fyrri stigum viðskiptanna.
Umfjöllun um aðrar tillögur er einnig að finna í skýrslu starfshópsins, til almennrar umsagnar.
Miða tillögurnar allar að því að auka neytendavernd og réttaröryggi á sviði fasteignakaupa. Er það í samræmi við áherslur í tillögu til þingsályktunar um stefnu í neytendamálum til 2030, og aðgerðaáætlun hennar, sem lögð hefur verið fram á 155. löggjafarþingi.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa viðskipta og ferðamála
mvf@mvf.is