Til umsagnar
26.9.–11.10.2024
Í vinnslu
12.10.2024–
Samráði lokið
Mál nr. S-190/2024
Birt: 26.9.2024
Fjöldi umsagna: 2
Drög að frumvarpi til laga
Innviðaráðuneytið
Húsnæðis- og skipulagsmál
Lagðar eru til breytingar á lögum um skipulag haf- og strandsvæða sem varða tilnefningu fulltrúa ráðuneyta í svæðisráð og skýrari ákvæði um skipunartíma svæðisráða og hlutverk Skipulagsstofnunar.
Lög um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018, sem tóku gildi í júní 2018, eru fyrsta heildstæða löggjöfin um skipulag haf- og strandsvæða hér við land. Kveða þau annars vegar á um að mótuð skuli stefna um skipulag haf- og strandsvæða sem verði hluti landsskipulagsstefnu og hins vegar að gert skuli strandsvæðisskipulag fyrir afmörkuð strandsvæði eftir því sem tilgreint er í stefnu um skipulag haf- og strandsvæða hverju sinni.
Í þingsályktun um landsskipulagsstefnu fyrir árin 2024-2038 og fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028, sem Alþingi samþykkti í maí 2024, eru í fyrsta sinn settar fram áherslur og aðgerðir er varða skipulag haf- og strandsvæða í samræmi við framangreint. Kemur þar m.a. fram að hefja eigi vinnu við gerð strandsvæðisskipulags fyrir annars vegar Eyjafjörð og hins vegar Skjálfandaflóa á árinu 2025. Þegar hefur verið unnið strandsvæðisskipulag fyrir annars vegar Vestfirði og hins vegar Austfirði í samræmi við bráðabirgðaákvæði I við lög um skipulag haf og strandsvæða. Tók strandsvæðisskipulagið fyrir bæði svæðin gildi 7. mars 2023.
Innviðaráðuneytið vinnur nú að undirbúningi heildarendurskoðunar á lögum um skipulag haf- og strandsvæða, bæði í ljósi þeirrar reynslu sem þegar hefur fengist af framkvæmd þeirra og einnig í þeim tilgangi að færi í þau ákvæði um hvernig staðið skuli að undirbúningi, gerð og framkvæmd skipulags hafsvæða utan strandsvæða. Er það einnig í samræmi við bráðabirgðaákvæði II við lögin þar sem kveðið er á um að þau skuli endurskoðuð í ljósi reynslunnar að lokinni vinnu við framgreint strandsvæðisskipulag Vestfjarða og Austfjarða en endurskoðuninni átti að vera lokið eigi síðar en þremur árum eftir gildistöku laganna.
Áður en niðurstöður þeirrar vinnu liggja fyrir er hins vegar nauðsynlegt að gerðar verðir tilteknar lágmarksbreytingar á lögum um skipulag haf- og strandsvæða til að sníða af þeim tæknilega agnúa sem komið hafa í ljós við framkvæmd þeirra, áður en frekari vinna við gerð strandsvæðisskipulags hefst. Er það efni þessa frumvarps.
Frumvarpið er að stórum hluta efnislega samhljóða frumvarpi sem kynnt var í Samráðsgátt stjórnvalda í október 2023. Í umsögnum sem bárust þá, m.a. frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, var helst gagnrýnt að frumvarpið fæli ekki sér víðtækari endurskoðun á lögunum en raun bar vitni. Með þeirri heildarendurskoðun laganna sem nú stendur fyrir dyrum og sem vinna á í góðu samráði við helstu hagsmunaaðila er komið til móts við þessi sjónarmið.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa húsnæðis- og skipulagsmála
irn@irn.is