Til umsagnar
18.9.–2.10.2024
Í vinnslu
3.10.–9.12.2024
Samráði lokið
10.12.2024
Mál nr. S-184/2024
Birt: 18.9.2024
Fjöldi umsagna: 8
Drög að frumvarpi til laga
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið
Vinnumarkaður og atvinnuleysi
Alls bárust átta umsagnir um frumvarpið. Ráðuneytið þakkar fyrir veittar umsagnir. Frumvarpið verður ekki lagt fram á 155. löggjafarþingi þar sem þingfundum hefur verið frestað og þinginu lokið.
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið kynnir til samráðs drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 77/2022, um sorgarleyfi.
Rík ástæða þykir til að styðja enn frekar við foreldra á innlendum vinnumarkaði í kjölfar áfalla og er þeim breytingum á lögum um sorgarleyfi sem mælt er fyrir um í frumvarpi þessu þannig ætlað að tryggja foreldrum, í skilningi laganna, sem missa maka sinn rétt til sorgarleyfis. Ljóst þykir að foreldri sem styður við syrgjandi barn á sama tíma og það syrgir sjálft maka sinn upplifir mikið álag og þykir því mikilvægt að veittur sé stuðningur og aukið svigrúm til sorgarúrvinnslu við slíkar aðstæður. Með frumvarpinu er þannig lagt til að foreldri, í skilningi laga um sorgarleyfi, sem verður fyrir því að hjúskapar- eða sambúðarmaki andast geti átt rétt á sorgarleyfi eða sorgarstyrk í allt að sex mánuði en samkvæmt gildandi lögum getur foreldri átt rétt á sorgarleyfi eða sorgarstyrk vegna barnsmissis, andvanafæðingar eða fósturláts.
Jafnframt er lagt til að foreldri, í skilningi laga um sorgarleyfi, sem hefur verið í samfelldu starfi í skilningi laganna skuli eiga sjálfstæðan rétt á sorgarleyfi eða sorgarstyrk í allt að sex mánuði frá þeim degi er andvanafæðing á sér stað eftir 22 vikna meðgöngu, en samkvæmt gildandi lögum á foreldri rétt á þriggja mánaða sorgarleyfi eða sorgarstyrk við slíkar aðstæður. Enn fremur er lagt til foreldri geti átt sjálfstæðan rétt til sorgarleyfis eða sorgarstyrks í allt að þrjá mánuði frá þeim degi sem fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu á sér stað en samkvæmt gildandi lögum er miðað við tveggja mánaða sorgarleyfi við slíkar aðstæður.
Þá er lagt til að verði foreldri fyrir andvanafæðingu eða barnsmissi, þar sem viðkomandi barn er yngra en 24 mánaða, verði foreldrinu heimilt að óska eftir að við útreikning Vinnumálastofnunar á mánaðarlegri greiðslu á grundvelli laganna verði tekið mið af tekjum viðkomandi á viðmiðunartímabili skv. 1.-3. mgr. 23. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020, eftir því sem við á.
Enn fremur er lagt til að skýrt verði kveðið á um að réttur til greiðslna á grundvelli laganna stofnist ekki vegna barnsmissis eða makamissis hafi foreldri, að mati dómstóls, framið brot á ákvæðum almennra hegningarlaga sem valdið hefur fyrrnefndum missi.
Þá eru í frumvarpi þessu lagðar til aðrar breytingar sem þykja nauðsynlegar í ljósi reynslunnar af framkvæmd gildandi laga um sorgarleyfi.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa vinnumarkaðar
frn@frn.is