Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 16.8.–2.9.2024

Í vinnslu

Samráði lokið

Mál nr. S-156/2024

Birt: 16.8.2024

Fjöldi umsagna: 0

Drög að frumvarpi til laga

Mennta- og barnamálaráðuneytið

Leikskólar, grunnskólar, önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og barnamála

Breyting á lögum um grunnskóla (námsmat)

Málsefni

Í drögum að frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um grunnskóla um aukna fjölbreytni matstækja sem standa grunnskólum til boða, gagnaöflun og nýtt fyrirkomulag skyldubundins samræmds námsmats.

Nánari upplýsingar

Mennta- og barnamálaráðuneytið kynnir til umsagnar drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um grunnskóla (námsmat). Frumvarpsdrögin eru byggð á stefnumótunarvinnu sem hefur farið fram undanfarin ár, þar á meðal skýrslunni Framtíðarstefna um samræmt námsmat frá 2020. Þá hefur farið fram víðtækt samráð síðastliðin ár, þar á meðal við fagfólk í málaflokknum, foreldra og börn.

Í frumvarpsdrögunum er boðuð sú breyting að fela ríkinu ábyrgð á því að tryggja grunnskólum til matstæki og er breytingin til samræmis við ný lög um Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Þá er í frumvarpinu lagt til að gera breytingu á 39. gr. laga um grunnskóla þar sem fjallað er um samræmt námsmat en þar er áfram er gert ráð fyrir því að ráðherra sem fer með málefni grunnskóla standi fyrir skyldubundnu samræmdu námsmati sem lagt er fyrir alla grunnskólanemendur. Þessi ákvæði frumvarpsins eiga að styðja við þróun og innleiðingu á svonefndum Matsferli sem hefur verið unnið að í samvinnu mennta- og barnamálaráðuneytisins og Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu á grundvelli framangreindrar stefnumótunarvinnu og Menntastefnu 2030.

Nám barna er samstarfsverkefni um gæðamenntun og farsæld hvers og eins barns. Matsferill er safn matstækja, sem að hluta eru valkvæð og öðrum hluta skylda, sem er ætlað að draga upp stuðla að árangri í því mikilvæga verkefni með því að tryggja heildstæða mynd af stöðu og framvindu hvers barns í námi, jafnt og þétt yfir skólagönguna.

Hlutverk Matsferils er tvíþætt:

• tryggja heildstæða og skýra mynd af stöðu hvers barns í námi og framförum þess jafnt og þétt yfir skólagönguna, m.a. með að markmiði að það fái viðeigandi kennslu og stuðning þegar þörf er á. Til þess fá skólar aðgang að fjölbreyttum matstækjum og verkfærum. Upplýsingarnar sem við það skapast eiga jafnframt að nýtast nemendum og forráðamönnum þeirra og stuðla að samtali og trausti í samstarfi heimila og skóla um nám við hæfi hvers og eins barns.

• afla upplýsinga um stöðu skólakerfisins í heild, með skyldubundnu samræmdu námsmati, þannig að stefnumótandi aðilar, sem og aðrir, geti fylgst með þróun námsárangurs yfir tíma og greint styrkleika og mögulegar áskoranir, bæði í einstökum sveitarfélögum og á landsvísu.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á skyldubundnu samræmdu námsmati, sem verður hluti Matsferils og því samtengt virku mati skóla á stöðu og framvindu barns, með það að leiðarljósi að það mat nái frekar tilætluðum samfélagslegum markmiðum og hægt sé að nýta gögn úr því með markvissari hætti. Í stað þess að leggja samræmd könnunarpróf fyrir 4. og 7. bekk og svo einu sinni á unglingastigi í íslensku, stærðfræði og ensku, verði skilgreint skyldubundið samræmt námsmat í 4., 6. og 9. bekk í íslensku og stærðfræði. Gert er ráð fyrir því að innan þessara námsgreina rúmist undirgreinar, t.d. að innan íslensku rúmist lesskilningur og íslenska sem annað mál.

Ákvæði til bráðabirgða við lög um grunnskóla, sem lagt er til í frumvarpinu, gerir ráð fyrir skyldubundnu samræmdu námsmati í íslensku og stærðfræði sem kemur til innleiðingar og framkvæmda í öllum skólum skólaárið 2025-2026. Ráðherra tryggir fullnægjandi stuðning við innleiðingu og metur þörf fyrir svigrúm og útfærslur á fyrsta ári framkvæmdar.

Auk þessa er lagt til að námsmat í öðrum greinum en íslensku og stærðfræði fari fram samkvæmt ákvörðun ráðherra. Með því er gert ráð fyrir að hægt sé síðar, eftir þörfum, að leggja fyrir samræmt námsmat í fleiri bekkjum og greinum eins og ensku og náttúrufræði.

Í frumvarpsdrögunum er talið nauðsynlegt að leggja til að leitt verði í lög ákvæði sem heimilar ráðherra að fella niður samræmt námsmat vegna óviðráðanlegra ytri aðstæðna en er hér einkum litið til aðstæðna sem sköpuðust í heimsfaraldri kórónuveiru og vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ.

Í frumvarpinu eru jafnframt lagðar til breytingar á ákvæðum laga um grunnskóla sem fjalla um vinnslu gagna. Lagt er til að skýrar verði kveðið á um heimildir ráðherra til að afla upplýsinga um námsmat í grunnskólum og fela Miðstöð menntunar og skólaþjónustu vinnslu gagna en markmið þess er að tryggja að ráðherra, sem og sveitafélög, skólar og aðrir viðeigandi aðilar eftir atvikum, hafi nægar upplýsingar um stöðu skólastarfs hér á landi. Einnig er lagt til að ráðherra beri skylda til að birta reglulega ópersónugreinanlegar upplýsingar um stöðu skólastarfs með opinberum hætti í þeim tilgangi.

Matsferill hefur verið þróaður í nánu samráði við skólasamfélagið þar sem leitað hefur verið eftir sjónarmiðum nemenda, foreldra, kennara, skólastjórnenda og annarra hagsmunaaðila, innan skólakerfisins sem og utan. Þróun Matsferils og þær breytingatillögur sem finna má í frumvarpinu hvíla á því samráði með það að markmiði að úr verði hagnýtt verkfæri sem styðja muni við skólastarf og verða grunnurinn að öflugra menntakerfi þegar fram líða stundir.

Viltu senda inn umsögn?

Umsagnir eru birtar jafnóðum og þær berast.

Boð um þátttöku (18)

Tenging við önnur mál (2)

Umsjónaraðili

Skrifstofa ráðuneytisstjóra og innri þjónustu

mrn@mrn.is