Til umsagnar
6.8.–6.9.2024
Í vinnslu
7.–10.9.2024
Samráði lokið
11.9.2024
Mál nr. S-152/2024
Birt: 6.8.2024
Fjöldi umsagna: 0
Áform um lagasetningu
Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Markaðseftirlit og neytendamál
Engar umsagnir bárust
Áformað er að innleiða Evrópugerð um sýndareignir.
Evrópugerðin er reglugerð (ESB) 2023/1114, um markaði fyrir sýndareignir (MiCA).
MiCA tilheyrir stafrænum fjármálapakka ESB sem fyrst var kynntur árið 2020, líkt og reglugerð (ESB) 2022/2554 frá 14. desember 2022 um stafrænan rekstrarlegan viðnámsþrótt fyrir fjármálageirann (DORA) og reglugerð (ESB) 2022/858 um tilraunaregluverk fyrir innviði markaða sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni (DFTR). Stafræna fjármálapakkanum er ætlað að stuðla að því að umgjörð fjármálamarkaða mæti nútímaþörfum, efldri samkeppni og nýsköpun, auk þess sem hugað er að fjárfestavernd, net- og upplýsingaöryggi, svo og fjármálastöðugleika.
Stafræni fjármálapakkinn, þ.m.t. MiCA, á rætur að rekja til aðgerðaráætlunar framkvæmdastjórnar ESB í tengslum við fjártækni frá árinu 2018. Á grunni aðgerðaráætlunarinnar unnu evrópsku eftirlitsstofnanirnar, ESMA og EBA, skýrslu um sýndareignir og hvernig ákveðnar sýndareignir kunna að bera einkenni sem gera það að verkum að þær falla undir gildandi regluverk ESB á sviði fjármálamarkaða. Í þessu samhengi má nefna sýndareignir sem uppfylla hugtaksskilyrði fjármálagernings eins og það hugtak er skilgreint í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/65/EU (MiFID II). Sýndareignir falla þó að mestu leyti utan gildissviðs gildandi regluverks Evrópusambandsins á fjármálamarkaði. Þá hefur verið talið að erfitt geti verið að beita gildandi regluverki gagnvart sýndareignum sem þó heyra undir gildissvið þess. MiCA er ætlað að fylla í þetta tómarúm með samræmdum reglum um sýndareignir.
Annað tilefni MiCA er tilkoma svokallaðra stöðugleikamynta (e. stablecoins), sem er einn undirflokkur sýndareigna. Með stöðugleikamyntum er í einfölduðu máli átt við sýndareignir hvers virði er bundið við eða tengt annarri eign, s.s. gjaldmiðil, vísitölu eða fjármálagerning. MiCA kveður á um ákveðnar verndarráðstafanir til að bregðast við áhættu sem stöðugleikamyntir kunna að skapa m.a. í tengslum við fjármálastöðugleika.
Í tillögu framkvæmdastjórnar ESB að MiCA kemur fram að markmið tillögunnar séu fjórþætt. Endurspegla þau ofangreinda umfjöllun um tilefni og nauðsyn MiCA. Í fyrsta lagi er markmiðið að stuðla að réttarvissu með það fyrir augum að örugglega megi þróa sýndareignir og hagnýtingarmöguleika dreifðrar færsluskrártækni í fjármálaþjónustu í fyrirsjáanlegu lagaumhverfi. Í öðru lagi er tillögunni ætlað að stuðla að nýsköpun og virkri og heilbrigðri samkeppni. Í þriðja lagi er markmið tillögunnar að tryggja fullnægjandi neytenda- og fjárfestavernd og heilleika markaða fyrir sýndareignir. Í fjórða og síðasta lagi er yfirlýst markmið tillögunnar að bregðast við áhættum sem aukin notkun sýndareigna, sérstaklega stöðugleikamynta, kann að hafa í för með sér fyrir fjármálastöðugleika og framkvæmd peningastefnu.
Meginefni áformaðs frumvarps er lögfesting MiCA og nauðsynlegra ákvæða þar að lútandi, einkum um heimildir eftirlitsaðila til upplýsingaöflunar, aðfararhæfi ákvarðana Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og EFTA-dómstólsins, viðurlög fyrir brot, starfsleyfisveitingu af hálfu fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands ásamt heimild ráðherra til að setja reglugerðir og Seðlabanka Íslands til að setja reglur.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa fjármálamarkaðar
steinar.steinarsson@fjr.is