Til umsagnar
11.7.–12.8.2024
Í vinnslu
13.8.–10.11.2024
Samráði lokið
11.11.2024
Mál nr. S-147/2024
Birt: 11.7.2024
Fjöldi umsagna: 61
Áform um lagasetningu
Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla
Sjá niðurstöðuskjal.
Áformað er að leggja fram frumvarp til laga um kílómetragjald vegna notkunar ökutækja (gjaldtaka ökutækja,eldsneytis, kolefnisgjald o.fl.).
Fyrirhugað er að leggja fram frumvarp á haustþingi um kílómetragjald vegna notkunar ökutækja á vegakerfinu sem komi til framkvæmda þann 1. janúar 2025 (skref nr. 2). Með frumvarpinu er áformað að greitt verði kílómetragjald fyrir notkun allra ökutækja í vegakerfinu eftir fjölda ekinna kílómetra í samræmi við þyngd ökutækja óháð því í hvaða flokki ökutækið er í.
Í meginatriðum fela áformin í sér:
- Kílómetragjald verði föst krónutala fyrir hvern ekinn kílómetra af ökutækjum með leyfða heildarþyngd 3.500 kg. eða minna, en fyrir liggur að þau ökutæki valda almennt áþekku vegsliti.
- Ef leyfð heildarþyngd ökutækis er umfram 3.500 kg. mun fjárhæð kílómetragjalds taka mið af heildarþyngd út frá útreikningi á tilteknum þyngdarstuðli. Kílómetragjaldið mun þannig fara stighækkandi með aukinni þyngd ökutækis en fyrir liggur að niðurbrotsáhrif þungra bifreiða á vegum landsins eru almennt mun meiri heldur en léttari bifreiða. Það að kílómetragjald verði grundvallað á þyngd ökutækis gerir það að verkum að gjaldtakan tekur mið af raunverulegum akstri ökutækis á vegum landsins að teknu tilliti til þyngdar þess.
- Kílómetragjald kemur í stað olíu- og bensíngjalda, sem nú eru greidd við kaup á jarðaefnaeldsneyti, og verða þau samhliða felld brott.
- Gjaldið verði greitt mánaðarlega út frá áætlun um meðalakstur á mánuði og gert upp þegar ný kílómetrastaða ökutækis er skráð á Ísland.is eða hjá faggiltri skoðunarstofu. Innheimta gjaldsins verði þannig með áþekkum hætti og tíðkast fyrir orkureikninga veitufyrirtækja.
Nýtt kerfi tryggir að fjárhagslegur hvati verði áfram til orkuskipta. Í kerfisbreytingunni felst hækkun á kolefnisgjaldi sem einnig styður við þennan hvata. Í nýju kerfi verður orkukostnaður og viðhaldskostnaður rafmagnsbíla áfram umtalsvert lægri en bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.
Þau markmið sem stefnt er að með frumvarpinu eru eftirfarandi:
• Koma á auknu jafnræði og sanngirni í gjaldtöku vegna notkunar á vegakerfinu óháð orkugjafa.
• Tryggja ríkissjóði sjálfbæra tekjuöflun af ökutækjum til framtíðar í því skyni að treysta forsendur fyrir fjármögnun á uppbyggingu og rekstri
vegakerfisins.
• Auka gagnsæi í gjaldtöku í samræmi við notkun ökutækja á vegum landsins.
• Byggja upp einfalt og notendavænt gjaldtökukerfi ökutækja.
• Samræma gjaldtöku með innleiðingu á einu kerfi fyrir alla gjaldtöku.
• Aðlögun að orkuskiptum og að framtíðarþróun, m.a. með álagningu kolefnisgjalds á mengandi ökutæki.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa skattamála
fjr@fjr.is