Til umsagnar
11.7.–1.8.2024
Í vinnslu
2.8.–16.12.2024
Samráði lokið
17.12.2024
Mál nr. S-142/2024
Birt: 11.7.2024
Fjöldi umsagna: 4
Drög að frumvarpi til laga
Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla
Brugðist var við ábendingum um vinnslu persónuuppplýsinga og miðlun gagna með því að kveða á um í frumvarpi að ráðherra skuli setja reglugerð með nánari fyrirmælum um hvernig skuli staðið að miðluninni og hvenær skylda til þess er til staðar. Aðrar athugasemdir gáfu ekki tilefni til breytinga.
Til stendur að skilgreina ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra á skipan upplýsingatækni í rekstri ríkisins.
Upphaflega stóð til að leggja frumvarpið fram vorið 2024 en það tókst ekki. Þar sem það breyttist nokkuð eftir upphaflegt samráð er samráðið nú endurtekið.
Efnisatriði frumvarpsins er þríþætt: Að formgera ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra á málefnasviðinu, kveða á um heimildir hans til að setja viðmið um skipan upplýsingatæknimála og notkun sameiginlegra stafrænna innviða og kveða á um skyldu ríkisaðila til að miðla gögnum sín á milli þegar þau eru nauðsynleg við veitingu opinberrar þjónustu. Markmiðið með frumvarpinu er að stuðla að samræmdri, hagkvæmri, öruggri og vandaðri skipan upplýsingatækni ríkisins, sem leiðir af sér aukna skilvirkni við veitingu opinberrar þjónustu. Jafnframt eru með aukinni samræmingu og yfirsýn öflug tækifæri til að bæta öryggi upplýsingatækni og gagna í rekstri ríkisins.
Í framkvæmd hefur verið litið svo á að upplýsingatæknimál ríkisins falli undir umbætur í ríkisrekstri, sem samkvæmt forsetaúrskurði eru á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra. Ráðherra heldur þannig úti stafrænu Íslandi, sem vinnur að stafrænni þróun í opinberri þjónustu. Ráðherra hefur einnig gefið út stefnur um málefnið, svo sem um öryggisflokkun gagna og um skýjaþjónustur. Hins vegar þykir rétt að skýrar sé kveðið á um þetta hlutverk ráðherra og það mótað í lögum.
Til að ná markmiðum frumvarpsins er ráðherra gert að setja viðmið um markvissa skipan upplýsingatækni og draga þannig úr þeirri sundurleitni sem einkennir núverandi fyrirkomulag. Þá er jafnframt gert ráð fyrir að ráðherra beri ábyrgð á að halda úti sameiginlegum stafrænum innviðum, en þar er átt við upplýsingatækni sem er þess eðlis að hún nýtist í starfsemi ríkisaðila heildstætt. Gott dæmi er staðlaður skrifstofuhugbúnaður og kjarnaþjónustur stafræns Íslands, s.s. umsóknarkerfi og innskráningarþjónusta. Í undantekningartilvikum er ráðherra heimilt að kveða á um skyldu ríkisaðila til að nota tiltekna sameiginlega innviði, en það á eingöngu við þegar heildarhagsmunir ríkisins krefjast þess. Heimildir til aukins miðlægs rekstrar eru þannig takmarkaðar og afleiðingar frumvarpsins ekki að allur rekstur og umsýsla upplýsingatæknikerfa verði gerð miðlæg.
Jafnframt er kveðið á um að ríkisaðilar miðli gögnum sín á milli, þegar það á við. Þar er m.a. vísað til þess þegar einn ríkisaðili þarf upplýsingar frá öðrum til að afgreiða umsókn einstaklings, en þegar svo stendur á er óeðlilegt að ríkið velti stjórnsýslulegri byrði af því að afla gagnanna yfir á umsækjandann. Þá geta gögn sömuleiðis verið nauðsynleg fyrir stjórnun, umsjón og eftirlit með þjónustu eða til að greiða fyrir umbótum og markvissum úrbótum, svo dæmi sé tekið. Í frumvarpinu er þó ekki hróflað við gildandi heimildum stofnana í sérlögum til að taka gjald fyrir miðlun upplýsinga, þó meginreglan verði að hún skuli gjaldfrjáls.
Að endingu er í frumvarpinu heimild til að setja reglugerð um annars vegar um aðgengiskröfur til vefsetra opinberra aðila og smáforrita þeirra fyrir fartæki og hins vegar um sameiginlega stafræna gátt til að veita aðgang að upplýsingum, málsmeðferðarreglum og aðstoð og þjónustu til lausnar á vandamálum. Í báðum tilvikum er um að ræða innleiðingu á reglugerð eða tilskipun sem hefur verið tekin upp í EES-samninginn. Tilgangurinn er að bæta opinbera þjónustu.
Annars vegar verða leidd í lög skilyrði sem vefsetrum og smáforritum opinberra aðila ber að uppfylla til að tryggja að aðgengi að þeim sé svo nýtist sem flestum. Til þessa hafa aðgengisviðmið byggt á aðgengisstefnu fyrir opinbera vefi sem þáverandi ríkisstjórn samþykkti árið 2012. Viðmiðin í stefnunni fylgja staðli alþjóðlegra samtaka um veraldarvefinn, en í tilskipuninni sem ætlunin er að innleiða er vísað til uppfærðrar útgáfu sama staðals. Hins vegar verður lögbundin skylda til að veita aðgengi að nauðsynlegum upplýsingum um framkvæmd stjórnsýslunnar í miðlægri gátt Evrópusambandsins.
Við gerð frumvarpsins var litið til framkvæmdar annars staðar á Norðurlöndum og hjá öðrum þjóðum sem við höfum átt í samstarfi við. Í Finnlandi hafa til dæmis verið sett lög um upplýsingastjórnun í opinberri stjórnsýslu. Þá hafa á Írlandi verið sett lög um miðlun gagna milli ríkisaðila. Jafnframt má nefna þróunina í Evrópusambandinu þar sem unnið er að því að setja staðla í reglugerð
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa stjórnunar og umbóta
thorsteinn.arnason@fjr.is