Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 5.7.–6.8.2024

2

Í vinnslu

  • 7.8.2024–

Samráði lokið

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-140/2024

Birt: 5.7.2024

Fjöldi umsagna: 13

Áform um lagasetningu

Mennta- og barnamálaráðuneytið

Leikskólar, grunnskólar, önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og barnamála

Áform um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 (námsmat)

Málsefni

Mennta- og barnamálaráðuneyti kynnir áform um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008

Nánari upplýsingar

Áformað frumvarp felur í sér afmarkaðar breytingar á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 í því skyni að tryggja að fyrirkomulag námsmats í grunnskólum stuðli að jöfnum tækifærum allra barna til einstaklingsmiðaðs náms og leiðsagnarmats. Lagðar eru til breytingar sem kveða á um heimildir ráðherra til að afla gagna um stöðu nemenda og skólakerfisins í stað samræmdra könnunarprófa og innleiða matsferil sem nýtt námsmatsfyrirkomulag. Þannig er hægt að fá nákvæmari mynd af stöðu hvers nemanda sem nýtist kennurum, nemendum, forsjáraðilum og skólum til úrbóta.

Tilgangur og gagnsemi samræmdra könnunarprófa ásamt tengslum þeirra við nútíma skólastarf og núgildandi aðalnámskrá hafa reglulega verið til umræðu undanfarin ár. Hafa prófin og framkvæmd þeirra sætt gagnrýni. Hlutverk þeirra hefur breyst verulega í gegnum tíðina m.a. með tilfærslu grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga, þátttöku Íslands í alþjóðlegum könnunum á heildarstöðu skólakerfisins og með breytingu þeirra árið 2008 þar sem samræmd könnunarpróf lágu ekki lengur til grundvallar inntöku nemenda í framhaldsskóla.

Í apríl 2018 skipaði þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra starfshóp skipaðan einstaklingum úr breiðum hópi hagsmunaaðila um samræmd könnunarpróf, með það hlutverk að vinna tillögu að framtíðarstefnu um markmið, hlutverk, framkvæmd og fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa. Starfshópurinn skilaði skýrslu árið 2020 og lagði þar til verulegar breytingar sem fólu m.a. í sér að samræmd próf í núverandi mynd yrðu ekki þróuð frekar og að notkun þeirra yrði hætt. Í stað þeirra verði þróað heildstætt safn matstækja í mörgum námsgreinum sem í grundvallaratriðum hafi sama markmið og samræmd könnunarpróf, svokallaðan matsferil.

Í framhaldi af skýrslu starfshópsins var árið 2022 ákveðið að afnema tímabundið skyldu til að leggja fyrir samræmd könnunarpróf, sem er í 39. gr. laga um grunnskóla, og hefja vinnu við þróun og innleiðingu á nýju námsmati byggðu á tillögum skýrslunnar. Var það gert með lögum, nr. 79/2022, um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 (samræmd könnunarpróf), sem fólu í sér nýtt ákvæði til bráðabirgða, um að ekki væri skylt að leggja fyrir samræmd könnunarpróf til og með 31. desember 2024. Þróun á matsferli hefur staðið yfir frá þeim tíma og er fyrsta matstæki matsferils, lesfimi, þegar í notkun. Gerð á leiðsagnarmati fyrir ritun er hafin og forprófun vegna nýrra lesskilningsprófa í gangi sem munu verða hluti af nýjum matsferli. Gert er ráð fyrir að matstæki í stærðfræði og lesskilningi verði tilbúin til notkunar í byrjun árs 2025.

Þann 1. apríl 2024 tóku gildi ný lög nr. 91/2023 um Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, sem er þjónustu- og þekkingarstofnun sem starfar í þágu barna og ungmenna á sviði menntamála. Samhliða var Menntamálastofnun lögð niður. Með lögunum voru gerðar breytingar á verkaskiptingu milli mennta- og barnamálaráðuneytisins og undirstofnunar sem fela m.a. í sér að Miðstöð menntunar og skólaþjónustu sinnir ekki lengur eftirliti, þ.m.t. ytra mati skóla og færðist ytra mat yfir til ráðuneytisins. Lögin gera hins vegar ráð fyrir að Miðstöð menntunar og skólaþjónustu byggi upp og haldi utan um námsmat í grunnskólum, svonefndan matsferil.

Áformað frumvarp lýtur að afmörkuðum breytingum sem felast í því að innleiða lykiltillögur sem komu fram í skýrslu starfshóps um framtíðarstefnu um samræmt námsmat og almenn sátt er um.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Boð um þátttöku (16)

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

aslaug.magnusdottir@mrn.is