Til umsagnar
16.9.–7.10.2024
Í vinnslu
8.10.2024–
Samráði lokið
Mál nr. S-131/2024
Birt: 16.7.2024
Fjöldi umsagna: 11
Áform um lagasetningu
Menningar- og viðskiptaráðuneytið (lagt niður 2025)
Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál
Menningar- og viðskiptaráðuneyti kynnir áform um endurskoðun á lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.
Menningar- og viðskiptaráðherra lagði fram á 154. löggjafarþingi þingsályktunartillögu að aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu fyrir árin 2024–2026 sem samþykkt var 8. maí síðastliðinn. Í umræddri aðgerðaáætlun um málefni íslenskrar tungu er ekki gert ráð fyrir endurskoðun laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011, í sérstakri aðgerð en ráðuneytið hefur þó hafið vinnu við undirbúning þess, m.a. með hliðsjón af ábendingum sem bárust í umsagnar- og samráðsferli þingsályktunartillögunnar um aðgerðaáætlunina. Til undirbúnings hefur ráðuneytið enn fremur óskað eftir ábendingum frá bæði Íslenskri málnefnd og Málnefnd um íslenskt táknmál og fleiri aðilum auk þess sem ráðuneytið óskaði sérstaklega eftir úttektum og greinargerðum frá þremur einstaklingum sem eru sérfræðingar á sviði íslensku, laga og stjórnsýslu eins og nánar er rakið í áformaskjalinu. Þessar greinargerðir bárust ráðuneytinu fyrri hluta árs 2024. Margar tillögur og ábendingar í þessu áformaskjali eiga uppruna sinn í fyrrgreindum greinargerðum eða öðrum ábendingum sem ráðuneytinu hafa borist.
Lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011, eru sannarlega ekki með elstu lögum í íslensku lagasafni en umtalsverðar breytingar hafa þó orðið á stöðu íslenskunnar síðan þá. Íbúar með erlendan bakgrunn eru nú um fimmtungur landsmanna og málumhverfi almennings og ekki síst yngri kynslóðarinnar hefur breyst gríðarlega með tilkomu samfélagsmiðla og erlendra efnisveitna þar sem efni á ensku er yfirgnæfandi. Þá hefur fjölgun ferðamanna til landsins leitt til þess að enska hefur orðið meira áberandi í almannarýminu.
Með áformaskjalinu eru einkum verið að fjalla um eftirfarandi atriði í lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011:
1. Íslenska málnefnd
2. Íslenska málstefnu og málstaðal
3. Gildissvið laganna
4. Önnur lög
Með því að birta áformin í samráðsgátt er óskað eftir athugasemdum og ábendingum varðandi þessi atriði sérstaklega en jafnframt önnur sem tengjast málefni íslenskrar tungu eða íslensks táknmáls og rétt væri að huga að endurskoðun á.
Tekið er fram að ráðuneytið kallar að þessu sinni eftir sjónarmiðum varðandi helstu breytingar á þeim ákvæðum sem varða íslenska tungu. Ráðuneytið ráðgerir að birta síðar í samráðsgátt áform um þær breytingar sem gera þarf á ákvæðum sem snerta íslenskt táknmál. Kveðið er á um þá endurskoðun í málstefnu íslensks táknmáls 2024-2027 sem samþykkt var á Alþingi í mars 2024. Vinna við þá endurskoðun er hafin og má gera ráð fyrir að þau áform birtist í samráðsgátt á fyrri hluta árs 2025.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa menningar og fjölmiðla
hallgrimur.j.amundason@mvf.is