Til umsagnar
25.6.–21.8.2024
Í vinnslu
22.8.2024–
Samráði lokið
Mál nr. S-124/2024
Birt: 25.6.2024
Fjöldi umsagna: 5
Áform um lagasetningu
Dómsmálaráðuneytið
Almanna- og réttaröryggi
Til stendur að breyta viðeigandi löggjöf vegna alþjóðlegra skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist og varða endurheimt ávinnings, netglæpi o.fl.
Um verður að ræða breytingar á sviði sakamálaréttarfars og refsiréttar vegna alþjóðlegra skuldbindinga sem Ísland hefur gengist undir, nánar tiltekið vegna krafna FATF í tengslum við endurheimt ávinnings (e. asset recovery) og tölvubrotasamning Evrópuráðsins (e. Convention on Cybercrime). Til þess að ná þeim markmiðum verða lagðar til breytingar á lögreglulögum nr. 90/1996, lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála og almennum hegningarlögum nr. 19/1940.
Lögreglulög:
Til skoðunar eru breytingar á 8. gr. lögreglulaga til að skýra hlutverk héraðssaksóknara í tengslum við vinnu við endurheimt ávinnings á landsvísu, sem gert er ráð fyrir að embættið sinni, sbr. 4. mgr. 8. gr. laganna. Lagðar verða til breytingar á þessu ákvæði til að skerpa enn frekar á þessu hlutverki héraðssaksóknara og skilgreina það betur í samræmi við tilmæli FATF.
Sakamálalög:
Í fyrsta lagi er áformað að efla úrræði lögreglu til öflunar fjármálaupplýsinga í þágu rannsóknar sakamáls með þeim hætti að fjármálafyrirtækjum verði skylt að verða við kröfu lögreglu um upplýsingar eða gögn þrátt fyrir þagnarskyldu. Sjá nánari útlistun í áformaskjalinu.
Í öðru lagi er áformað að breyta ákvæðum XI. kafla laganna sem mæla fyrir um heimild lögreglu til haldlagningar og málsmeðferð þar að lútandi. Í 68. gr. sml. kemur fram að lagt skuli hald á muni, þar á meðal skjöl, ef ætla megi að munirnir ellegar hlutir eða upplýsingar sem þeir hafa að geyma hafi sönnunargildi í sakamáli, hafi verið aflað á refsiverðan hátt eða kunni að verða gerðir upptækir með dómi. Áformaðar breytingar eru annars vegar nýtt ákvæði sem fjallar um skilyrði til haldlagningar og leitar í rafrænum gögnum á munum og í gagnavörsluskýjum. Hins vegar er áformað að rýmka inntak og gildissvið 68. gr. með þeim hætti að heimilt verði að leggja hald á muni til að tryggja greiðslu sektar og sakarkostnaðar, eins og nú er heimilt með því að beita kyrrsetningu. Sjá nánari útlistun í áformaskjalinu.
Í þriðja lagi er áformað að breyta ákvæði 88. gr. sml. um kyrrsetningu ásamt viðeigandi ákvæðum laga á sviði fullnusturéttarfars, til að tryggja réttindi ríkisins sem beiðanda kyrrsetningar. Er áformað að leggja til breytingar sem styrkja réttaráhrif kyrrsetningar sem tryggingarráðstöfunar og gera ríkinu fært að verja réttindi sín, þannig að ekki sé unnt að benda á kyrrsettar eignir til tryggingar öðrum kröfum né að unnt verði að selja eignir nauðungarsölu á meðan kyrrsetning á grundvelli 88. gr. sml. er í gildi. Sjá nánari útlistun í áformaskjalinu.
Í fjórða lagi er áformað að gera breytingar á sakamálalögum við leit og haldlagningu gagna geymdum á tölvum og gagnahlustun. Líkt og fyrr segir er áformað að meta hvort gera þurfi breytingar á ákvæðum sakamálalaga til að þau samræmist að fullu öðrum þætti tölvubrotasamningsins um réttarfar, nánar tiltekið 14.-21. gr. samningsins. Sjá nánari útlistun í áformaskjalinu.
Almenn hegningarlög:
Í fyrsta lagi er áformað að endurskoða ákvæði almennra hegningarlaga varðandi upptöku, sbr. VII. kafla laganna, vegna áskilnaðar í tilmælum FATF um jafnvirðisupptöku. Virðist þörf á rýmkun á gildissviði 69. gr. og einkum 69. gr. b., þannig að unnt sé að gera eignir og verðmæti upptæk að jafnvirði þess ávinnings sem liggur fyrir að aflað hafi verið með broti. Sjá nánari útlistun í áformaskjalinu.
Í öðru lagi er áformað að endurskoða ákvæði laganna varðandi netbrot en þörf er á að bæta við efnisákvæði um það þegar brotist er inn í tölvukerfi, þ.e. þegar tölvukerfi er hakkað. Taka þarf til skoðunar hvort breyta þurfi almennum hegningarlögum til að geta betur mætt þeim skuldbindingum sem 2. og 6. gr. tölvubrotasamningsins leggja á aðildarríki hans. Sjá aftur nánari útlistun í áformaskjalinu.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa almanna- og réttaröryggis
dmr@dmr.is