Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 6.–20.3.2024

2

Í vinnslu

  • 21.3.2024–

Samráði lokið

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-70/2024

Birt: 6.3.2024

Fjöldi umsagna: 14

Drög að stefnu

Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Fjölmiðlun

Drög að tillögu til þingsályktunar um fjölmiðlastefnu og aðgerðaáætlun í málefnum fjölmiðla til 2030

Málsefni

Drög að tillögu til þingsályktunar um fjölmiðlastefnu og aðgerðaáætlun með 29 skilgreindum aðgerðum til að fylgja eftir áherslum í stefnunni.

Nánari upplýsingar

Með fjölmiðlastefnu 2024-2030 er mótuð framtíðarsýn og skilgreind meginmarkmið á málefnasviði fjölmiðla. Aðgerðir stefnunnar miða að því að efla innlenda fjölmiðla, sem gegna mikilvægu hlutverki fyrir íslenskt samfélag, menningu, tungumál og lýðræði.

Fjölmiðlastefna þessi er mótuð af menningar- og viðskiptaráðuneytinu með aðkomu hag- og fagaðila, mennta og barnamálaráðuneytis og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis. Um er að ræða fyrstu opinberu stefnu um málefni fjölmiðla á Íslandi.

Fjölmiðlastefnan er unnin með hliðsjón af opinberri stefnu stjórnvalda um málefni fjölmiðla. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar 2021 segir að ríkisstjórnin leggi áherslu á fjölbreytni í flóru fjölmiðla með öflugu almannaútvarpi og einkareknum fjölmiðlum. Þá kemur fram í fjármálaáætlun stjórnvalda 2023-2027 að á tímabilinu verði unnin fjölmiðlastefna, þar sem meðal annars verði kveðið á um einkarekna fjölmiðla, fjölmiðlun í almannaþágu og miðla- og upplýsingalæsi almennings.

Grunnur að fjölmiðlastefnu var lagður í menningar- og viðskiptaráðuneytinu, með aðkomu hag- og fagaðila, mennta og barnamálaráðuneytis og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis. Stefnan byggir að hluta á eldri stefnumótun sem fram fór árið 2018 og að hluta á tillögum tveggja starfshópa sem menningar- og viðskiptaráðuneytið skipaði sumarið 2023. Á grunni framangreindrar vinnu liggja nú fyrir drög að fjölmiðlastefnu og aðgerðaáætlun til 2030.

Í fjölmiðlastefnu birtast skýr áform stjórnvalda um að styðja við starfsemi einkarekinna fjölmiðla og tryggja greiðan aðgang að vandaðri fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Fjölmiðlastefnu er ætlað að stuðla að fjölbreytni á íslenskum fjölmiðlamarkaði og virkri lýðræðislegri samfélagsumræðu. Einnig er áhersla lögð á vernd og valdeflingu almennings í stafrænum heimi, einkum barna, og að börn og ungmenni hafi aðgang að innlendu fjölmiðlaefni á íslensku. Fjölmiðlastefnan byggist á tveimur meginmarkmiðum sem ætlað er að stuðla að umbótum er styrki fjölbreytni og fagmennsku á fjölmiðlamarkaði og bregðast við áskorunum samtímans á sviði tækni og stafrænna miðla.

Í stefnunni koma fram sjö markmið og 29 skilgreindar aðgerðir sem ætlað er að fylgja eftir áherslum stefnunnar og ná þeim markmiðum sem þar koma fram. Tíu aðgerðir falla undir markmið um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla og starfsumhverfi fjölmiðlafólks, ein undir markmið um hagnýta menntun blaða- og fréttamanna, fimm undir markmið um að vandaða fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, tvær undir markmið um aukið gagnsæi um auglýsingakaup hins opinbera, tvær undir markmið um fjölmiðlafrelsi og vernd blaða- og heimildarmanna, fjórar undir markmið um miðla- og upplýsingalæsi allra aldurshópa og fimm undir markmið um vernd og valdeflingu barna í stafrænu umhverfi.

Að lokinni birtingu í samráðsgátt verður farið yfir umsagnir og ábendingar sem þar berast. Að því loknu verður fjölmiðlastefnan fullunnin og lögð fram í formi þingsályktunartillögu á Alþingi í mars.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Boð um þátttöku (40)

Umsjónaraðili

Skrifstofa menningar og fjölmiðla

mvf@mvf.is