Til umsagnar
5.–15.3.2024
Í vinnslu
16.3.2024–
Samráði lokið
Mál nr. S-69/2024
Birt: 5.3.2024
Fjöldi umsagna: 7
Drög að frumvarpi til laga
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið
Umhverfismál
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir til samráðs drög að frumvarpi um Loftslags- og orkusjóð.
Í frumvarpinu er lögð til breyting á lögum um Orkusjóð nr. 76/2020 og lögum um loftslagsmál nr. 70/2012. Meginhlutverk nýs Loftslags- og orkusjóðs verður að styðja við nýsköpunar- og innviðaverkefni á sviði loftslagsmála, orkunýtingar og hringrásarhagkerfis.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að Ísland verði vagga nýrra lausna á grunni auðlinda, þekkingar og staðsetningar. Styðja á við græna atvinnuuppbyggingu og fjárfestingar ásamt því að greiða götu verkefna, m.a. á sviði föngunar, geymslu og förgunar kolefnis og uppbyggingu hringrásarhagkerfis með fjölnýtingu orkustrauma og orkuskipta.
Markmið með frumvarpinu er að einfalda og auka við styrkveitingar á sviði umhverfis-, orku- og loftslagsmála með það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Núverandi skipulag við styrkveitingar ráðuneytisins er óþarflega flókið og veldur aukakostnaði við umsýslu sjóða og fjármagns. Verði frumvarpið að lögum verður hægt að setja enn skýrari áherslu á að þau verkefni sem styrkt eru stuðli að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda.
Með frumvarpinu er ætlunin að sameina tvo sjóði sem heyra undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið — Orkusjóð og Loftslagssjóð — sem styrkja annars vegar verkefni sem tengjast orkuskiptum og hins vegar nýsköpun á sviði loftslagsmála. Einnig munu styrkveitingar til innleiðingar á hringrásarhagkerfinu falla undir nýjan sameinaðan sjóð sem lagt er til að muni bera nafnið Loftslags- og orkusjóður.
Auk þessa meginhlutverks Loftslags- og orkusjóðs að styðja við nýsköpunar- og innviðaverkefni á sviði loftslagsmála, orkunýtingar og hringrásarhagkerfis, er gert ráð fyrir að sjóðurinn sjái um beinar stuðningsaðgerðir, svo sem styrki til kaupa á rafbílum og styrki til jarðhitaleitar, eftir atvikum hverju sinni. Að lokum er lagt til að kveðið verði skýrar á um að ákvarðanir stjórnar Loftslags- og orkusjóðs um styrkveitingar séu endanlegar á stjórnsýslustigi.
Óskað er eftir því að athugasemdir við frumvarpsdrögin berist eigi síðar en 15. mars nk.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa stefnumótunar og innleiðingar
urn@urn.is