Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 27.2.–12.3.2024

2

Í vinnslu

  • 13.3.2024–

Samráði lokið

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-60/2024

Birt: 27.2.2024

Fjöldi umsagna: 24

Drög að frumvarpi til laga

Mennta- og barnamálaráðuneytið

Leikskólar, grunnskólar, önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og barnamála

Frumvarp til laga um inngildandi menntun

Málsefni

Mennta- og barnamálaráðuneyti kynnir til samráðs drög að frumvarpi til laga um inngildandi menntun.

Nánari upplýsingar

Í frumvarpinu er lagt til að sett verði heildarlög um inngildandi menntun barna og ungmenna í leik-, grunn- og framhaldsskólum og frístundastarfi, og skipulag þjónustu við inngildandi menntun.

Í frumvarpinu er kveðið á um að í leik-, grunn- og framhaldsskólum og frístundastarfi skuli fara fram inngildandi menntun og um rétt barna og ungmenna til þess. Inngildandi menntun felur m.a. í sér heildstætt skipulag kennslu, starfshátta og stuðningsúrræða í skóla- og frístundastarfi, eftir eðli og umfangi þarfa hvers barns og ungmennis. Það byggir á þverfaglegri teymisvinnu, markvissu símati og hagnýtingu gagna til að auka skilvirkni, efla gæði starfs og styðja við farsæla skólagöngu allra barna og ungmenna. Gert er ráð fyrir að inntak inngildandi menntunar verði útfært nánar í reglugerð.

Þá er í frumvarpinu lagt til að kveða á um rétt barna og ungmenna til inngildandi menntunar, þ. á m. um rétt barna, ungmenna og foreldra til að óska eftir því að þörfum barns og ungmennis sé mætt og í hvaða farveg beina skal slíkum beiðnum. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir því nýmæli að gera áætlun um inngildandi menntun fyrir börn og ungmenni þegar þörf er á.

Með frumvarpinu er einnig lagt til að útfæra, samræma og lögbinda þjónustu við inngildandi menntun í skóla- og frístundastarfi með það að markmiði að efla stuðning við börn og ungmenni, foreldra og starfsfólk skóla og frístundastarfs. Meginefni frumvarpsins snýr að skipulagi og verkefnum þjónustu við inngildandi menntun en þar á meðal er mikil áhersla á samstarf og samþættingu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að framkvæmd og inntak þjónustunnar verði útfærð nánar í reglugerð. Með frumvarpinu er lagt til að þjónustan verði þrískipt:

1. Innri skólaþjónusta sem er innra stoðkerfi skóla- og frístundastarfs á vettvangi viðkomandi skóla og er liður í daglegu starfi þess.

2. Ytri skólaþjónusta sem er ytra stoðkerfi skóla- og frístundastarfs og er ætlað að vera faglegur stuðningur, annars vegar sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og frístundastarf, og hins vegar ríkis við framhaldsskóla. Miðstöð menntunar og skólaþjónustu verður falið að veita ytri skólaþjónustu við framhaldsskóla. Ytri skólaþjónusta felur m.a. í sér ráðgjöf til starfsfólks skóla við kennslu- og starfshætti, starfsþróun og samstarf heimila og skóla, ráðgjöf til barna, ungmenna og foreldra, auk mats á þáttum sem hafa áhrif á nám, líðan og velferð barna eða ungmenna í skóla- og frístundastarfi.

3. Landsstuðningur við skólaþjónustu sem er miðlægur samræmdur stuðningur nýrrar Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu þvert á skólastig og um land allt. Stuðningurinn felur m.a. í sér að styðja við og samhæfa fagleg vinnubrögð skólaþjónustu á ólíkum skólastigum, styðja við starfsþróun, skólaþróun og ferli stöðugra umbóta í skólum og veita ráðgjöf og leiðsögn í málefnum barna og ungmenna sem eru í viðkvæmri stöðu í skólakerfinu.

Þá er lagt til að eftirlit með innri og ytri skólaþjónustu verði hjá ráðuneytinu ásamt því að beina skal kvörtunum og ábendingum um aðra framkvæmd laganna til ráðuneytisins.

Í samræmi við framangreint eru lagðar til viðeigandi breytingar á lögum um leikskóla, lögum um grunnskóla, lögum um framhaldsskóla, lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og lögum um Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

Að lokum er lagt til í ákvæðum til bráðabirgða að ráðist verði í þrjú afmörkuð verkefni í tengslum við gildistöku laganna. Í fyrsta lagi er það verkefni sem snýr almennt að innleiðingu laganna, í öðru lagi skal taka umgjörð eftirlits þjónustunnar til endurskoðunar á innleiðingartímabilinu og í þriðja lagi að heilbrigðisráðuneytið, í samstarfi við mennta- og barnamálaráðuneytið, skoði með nánari hætti fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu við skólakerfið.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Boð um þátttöku (20)

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Skrifstofa ráðuneytisstjóra og innri þjónustu

mrn@mrn.is