Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 19.2.–3.3.2024

2

Í vinnslu

  • 4.–6.3.2024

3

Samráði lokið

  • 7.3.2024

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-46/2024

Birt: 19.2.2024

Fjöldi umsagna: 22

Drög að frumvarpi til laga

Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál

Stofnun Þjóðaróperu

Niðurstöður

Frumvarpið fer nú til frekari vinnslu og innra samráðs í stjórnarráðinu. Þær umsagnir sem bárust endurspegla að miklu leyti þau sjónarhorn er höfð voru til hliðsjónar við undirbúning frumvarpsins, en þar var m.a. haft umtalsvert samráð við fagfélög innan sviðslistanna. Það er því einungis talin ástæða til að gera minniháttar breytingar á frumvarpinu, en frá þeim verður skýrt í greinargerð frumvarpsins sem hægt verður að nálgast á vef Alþingis.

Málsefni

Hér er lagt til samráðs frumvarp um breytingar á sviðslistalögum nr.165/2019, með nýjum kafla um Þjóðaróperu.

Nánari upplýsingar

Með þessu frumvarpi er lagt til að stofnuð verði Þjóðarópera, en það hefur um nokkurt skeið verið hluti af opinberri stefnu stjórnvalda. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur m.a. fram að áfram skuli unnið að þarfagreiningu vegna óperustarfsemi í landinu með það að markmiði að setja á laggirnar Þjóðaróperu.

Með frumvarpinu er verið að styrkja grundvöllinn fyrir íslenska óperulist, en sem mikilvægur hluti sviðslista er hún ein af meginstoðum menningar á Íslandi. Þá mun Þjóðarópera skapa starfsvettvang fyrir fjölda söngvara, hljóðfæraleikara, hönnuða og leikstjóra, auka fjölbreytni og nýsköpun í menningarstarfsemi og stuðla að varðveislu og miðlun íslensks menningararfs í listsköpun.

Það er stefna stjórnvalda að sameina ríkisstofnanir og í þeim frumvarpsdrögum sem hér eru kynnt er lagt til að Þjóðarópera verði stofnuð innan Þjóðleikhússins. Ætlunin er að með nánu samstarfi við aðra sviðslistastofnun náist samlegðaráhrif sem skili sér í minni yfirbyggingu og margþættri samnýtingu á innviðum og stoðdeildum. Á sama tíma er stigið fyrsta skrefið í átt að framtíðar fyrirkomulagi þar sem allar sviðlistastofnanir ríkisins verði reknar undir einum hatti með jafnræði milli listrænna stjórnenda hverrar listgreinar.

Lagt er til að breyting verði á grein um þjóðleikhúsráð, en í því verði fjölgað um tvo aðila er hafi staðgóða reynslu af vettvangi óperulista. Þá er lagt til að nýjum kafla um Þjóðaróperu verði bætt inn í gildandi sviðslistalög. Þar er kveðið á um hlutverk og helstu verkefni Þjóðaróperu, skipun óperustjóra og ábyrgð hans. Þá er grein um samstarfsákvæði og rekstrarfyrirkomulag Þjóðaróperu og einnig fjallað um fjárveitingar til hennar. Loks eru ákvæði er varða heimildir ráðherra til að setja reglugerðir varðandi rekstur Þjóðaróperu og bráðabirgðaákvæði er kveður á um stofnun nefndar er skuli kanna forsendur fyrir frekari samrekstri sviðslistastofnana ríkisins.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að aðalaðsetur Þjóðaróperu verði í Hörpu, sem mun aðlaga rými sín fyrir aukna óperustarfsemi í húsinu, en sýningar verði bæði í Hörpu, Þjóðleikhúsi, Hofi á Akureyri og víðar.

Í frumvarpinu er lagt til að óperustjóri verði skipaður af ráðherra til fimm ára í senn, heyri undir þjóðleikhússtjóra í skipuriti en hafi þó sjálfstæði í stjórnun Þjóðaróperu og beri listræna ábyrgð á henni. Gert er ráð fyrir að Þjóðarópera ráði yfir 12 fullum stöðugildum fyrir einsöngvara og 16 hálfum stöðugildum fyrir kór, auk fasts starfsfólks.

Gert er ráð fyrir öflugu fræðslustarfi, samstarfi við tónlistarfélög, leikfélög og kóra á landsbyggðinni, auk samstarfs við grasrót, en einnig skal stefnt að því að íslensk verk verði árlega á dagskrá. Lögð verður áhersla á kraftmikið starf og fjölbreytt verkefni, hefðbundin sem óhefðbundin, sem sýnd verða á ólíkum stöðum.

Lagt er til að Þjóðaróperan hefji starfsemi sína í áföngum og verði byggð upp í markvissum skrefum frá ársbyrjun 2025. Í gildandi fjármálaáætlun er ekki gert ráð fyrir aukningu til málaflokksins, en við undirbúning fjármálaáætlunar 2025-2029 verður óskað eftir að varanlegt fjármagn til óperustarfsemi aukist um 600 m.kr. í áföngum og verði samtals 800 m.kr. árlega að núvirði frá og með árinu 2028.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Boð um þátttöku (25)

Umsjónaraðili

Skrifstofa menningar- og ferðamála

finnur.bjarnason@mvf.is