Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 15.–29.2.2024

2

Í vinnslu

  • 1.3.–8.9.2024

3

Samráði lokið

  • 9.9.2024

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-43/2024

Birt: 15.2.2024

Fjöldi umsagna: 38

Drög að frumvarpi til laga

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Örorka og málefni fatlaðs fólks

Drög að frumvarpi vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfisins

Niðurstöður

Frumvarpið var lagt fram á Alþingi 19. mars 2024, sbr. hlekk hér fyrir neðan. Í greinargerð er fjallað um athugasemdir í umsögnum og viðbrögð við þeim.

Málsefni

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið kynnir til samráðs drög að frumvarpi um breytingu á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga.

Nánari upplýsingar

Í stjórnarsáttmála er lögð rík áhersla á að málefni örorkulífeyrisþega verði tekin til endurskoðunar á kjörtímabilinu með það að markmiði að bæta lífskjör og lífsgæði einstaklinga með mismikla starfsgetu. Sérstaklega verði horft til þess að bæta afkomu og möguleika til virkni, menntunar og atvinnuþátttöku á eigin forsendum.

Þá er einnig sett fram það markmið að einstaklingum sem missa starfsgetuna verði í auknum mæli tryggð þjónusta og stuðningur strax á fyrstu stigum með tilliti til líkamlegra, sálfræðilegra og félagslegra þátta sem hafa áhrif á starfsgetu.

Frumvarp þetta snýr einkum að örorkulífeyriskerfi almannatrygginga og er því ætlað að bæta áfram afkomu örorkulífeyrisþega, sérstaklega kjör þeirra sem lakast standa, og auka stuðning við þau sem búa við langvarandi eða alvarlegan heilsubrest og fá meðferð eða taka þátt í endurhæfingu. Dregið verði úr áhrifum annarra tekna á fjárhæðir greiðslna með frítekjumörkum og kerfið í senn gert einfaldara, gagnsærra og réttlátara. Þá er það markmið með frumvarpinu að auðvelda þátttöku og endurkomu einstaklinga á vinnumarkað eftir sjúkdóma, slys eða áföll þannig að fólk hafi fjárhagslegan hag af atvinnuþátttöku og njóti stuðnings við atvinnuleit.

Þær breytingar sem lagðar eru til fela þannig í sér bætta þjónustu, bætt kjör með betra greiðslukerfi og mikilvæga hvata til atvinnuþátttöku. Samandregið eru helstu nýmæli og úrbætur sem stefnt er að:

Samvinna kerfa og samhæfingarteymi:

Lagt er til að þau þjónustukerfi sem veita endurhæfingarþjónustu skuli eiga með sér samstarf og samvinnu um endurhæfingu einstaklinga sem þurfa þjónustu fleiri en eins kerfis eða þurfa að fara á milli kerfa. Komið skal á samhæfingarteymum sem hafa yfirsýn yfir mál einstaklinga með flóknar þjónustuþarfir.

Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur:

Lagt er til að komið verði á fót sjúkra- og endurhæfingargreiðslum sem styrkja verulega stöðu þeirra sem þurfa á endurhæfingu að halda vegna langvarandi eða alvarlegs heilsubrests. Þær koma í stað endurhæfingarlífeyris og ná til breiðari hóps af fólki en áður. Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur eru fyrir fólk sem fær viðurkennda meðferð, tekur þátt í endurhæfingu, bíður eftir að komast að í meðferð eða endurhæfingarúrræði með það að markmiði að stuðla að aukinni þátttöku á vinnumarkaði eða eftir því að viðkomandi teljist fær um að hefja meðferð eða endurhæfingu. Til grundvallar greiðslunum liggur endurhæfingaráætlun sem tekur mið af þörfum einstaklingsins hverju sinni.

Samþætt sérfræðimat:

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að horfið verði frá örorkumati eins og við þekkjum það í dag, en þess í stað tekið upp samþætt sérfræðimat sem er heildrænt mat á getu viðkomandi til virkni á vinnumarkaði. Matið byggir á hugmyndafræði alþjóðlegs flokkunarkerfis um færni, fötlun og heilsu og kemur frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Hugsunin að baki því snýr að valdeflingu og að styðja fólk til að nýta sem best alla sína getu.

Nýr örorkulífeyrir:

Lagt er til að tveir greiðsluflokkar almannatrygginga og einn greiðsluflokkur félagslegrar aðstoðar verði sameinaðir í einn flokk: Nýjan örorkulífeyri. Hann greiðist þeim einstaklingum sem hafa verið metnir með enga eða mjög takmarkaða getu til atvinnuþátttöku (0-25%). Reglur um útreikning greiðslna verða auk þess einfaldari og skýrari.

Hlutaörorkulífeyrir:

Lagt er til að tekin verði upp sú nýbreytni að greiða hlutaörorkulífeyri. Hann er fyrir fólk sem uppfyllir ekki skilyrði fyrir örorkulífeyri en er samt sem áður metið með takmarkaða getu til virkni á vinnumarkaði (26-50%). Þau sem hafa tækifæri til að vinna hlutastörf geta með þessu aukið ráðstöfunartekjur sínar umtalsvert því auk launa munu þau eiga rétt á hlutaörorkulífeyrinum.

Tvö úrræði til viðbótar, virknistyrkur og sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna, styðja síðan enn betur við umræddan hóp sem hingað til hefur mætt hindrunum við að fara út á vinnumarkað.

Virknistyrkur:

Lagt er til að Vinnumálastofnun verði falið að greiða sérstakan virknistyrk. Honum er ætlað að grípa fólk sem á rétt á hlutaörorkulífeyri meðan það leitar að vinnu. Þannig er hann mikilvægur hvati til atvinnuþátttöku. Fólk getur fengið virknistyrk frá Vinnumálastofnun í allt að 24 mánuði meðan það er í virkri atvinnuleit og nýtur auk þess aðstoðar stofnunarinnar við leitina. Styrkurinn fellur niður þegar og ef fólk hefur störf. Hafi fólk ekki fengið starf eftir 24 mánuði getur það óskað eftir nýju samþættu sérfræðimati.

Sérstakt frítekjumark þeirra sem fá hlutaörorkulífeyri:

Frítekjumark eru þær tekjur sem fólk má hafa án þess að greiðslur til þeirra skerðist. Lagt er til að komið verði á stórauknum hvötum fyrir fólk sem fær greiddan hlutaörorkulífeyri til að fara út á vinnumarkað. Þetta er gert með því að leggja til að sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna þeirra verði 250.000 kr. á mánuði. Almennt frítekjumark þeirra verður 100.000 kr. og samanlagt getur einstaklingur sem fær greiddan hlutaörorkulífeyri því haft 350.000 kr. í tekjur á mánuði án þess að greiðslur til hans skerðist.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Boð um þátttöku (20)

Umsjónaraðili

Skrifstofa félags- og lífeyrismála

frn@frn.is