Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 17.1.–22.2.2024

2

Í vinnslu

  • 23.2.–22.5.2024

3

Samráði lokið

  • 23.5.2024

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-3/2024

Birt: 17.1.2024

Fjöldi umsagna: 82

Drög að reglugerð

Matvælaráðuneytið

Umhverfismál

Reglugerð um sjálfbæra landnýtingu

Niðurstöður

Unnið var úr þeim 82 umsögnum sem bárust í samráðsferlinu. Helstu breytingar voru að unnið verður með mat á ástandi lands í stað vistgetu. Skil milli reglna og leiðbeininga eru skýrð betur. Tekin eru út viðmið varðandi halla lands og hæð yfir sjó. Tekin eru út töluleg viðmið fyrir hlutfall lands í mismunandi ástandsflokkum. Reglugerðin var staðfest af ráðherra 15. maí 2024.

Málsefni

Matvælaráðuneytið kynnir til samráðs drög að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu í samræmi við 11. gr. laga um landgræðslu.

Nánari upplýsingar

Í þeim drögum að reglugerð sem hér eru kynnt eru settar fram meginreglur sjálfbærrar landnýtingar og viðmið fyrir þá landnýtingarflokka sem reglugerðin tekur til og tilgreindir eru í lögum um landgræðslu. Nánari útskýringar á viðmiðum og leiðbeiningar eru sett fram í fjórum viðaukum, fyrir beit búfjár (viðauki I), akuryrkju (viðauki II), framkvæmdir (viðauki III) og umferð fólks og ökutækja (viðauki IV).

Land og skógur getur staðfest að landnýting sé sjálfbær. Þar sem niðurstaða mats Lands og skógar er að land uppfyllir ekki viðmið um sjálfbæra landnýtingu þá er gert ráð fyrir að unnin sé landbótaáætlun þar sem úrbætur eru skilgreindar.

Aðferðafræði fyrir mat á ástandi beitarlanda sem kynnt er í viðauka I gerir ráð fyrir að landi sé skipt í fjóra flokka eftir frávikum frá viðmiðunarsvæði eða vistgetu.

Í landbótaáætlun vegna búfjárbeitar koma ýmsar úrbætur til greina. Skilgreina má landsvæði í slæmu ástandi sem ekki eru nýtt markvisst til beitar og sem búfé sækir ekki inn á að jafnaði utan beitilanda. Samhliða því verði skilgreindar aðgerðir um meðferð búfjár sem finnst á þessum svæðum. Einnig koma til greina landbætur, sem getur t.d. falist í uppgræðslu lands innan beitarlands eða á öðru landi sem getur þá tekið við sem beitarland enda sé fyrirsjáanlegt að með því náist markmið um sjálfbæra landnýtingu. Við gerð landbótaáætlunar þarf m.a. að leggja mat á beitarálag og árangur fyrri aðgerða. Drögin gera ráð fyrir að landbótaáætlanir fyrir beitarsvæði sem unnar voru grundvelli reglugerðar um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu gildi til ársloka 2026.

Skoða má ýmis gögn sem tengjast beitarnýtingu í meðfylgjandi vefsjá . Þar á meðal er afmörkun á beitarlöndum, afmörkun jarða skv. tiltækum gögnum frá árinu 2006, tilgátukort um frávik frá viðmiðunarsvæðum og ýmis önnur gögn sem hjálpleg eru við mat á landi. Upplýsingar sem birtast á tilgátukorti geta breyst í vettvangsathugun sem fara þarf fram í öllum tilvikum.

Í drögunum eru jafnframt sett fram viðmið og leiðbeiningar vegna akuryrkju sem má segja að sé nýmæli að sett séu í reglugerð þó settar hafi verið starfsreglur um góða búskaparhætti árið 2002.

Lögð eru til viðmið vegna framkvæmda sem fjalla einkum um að lágmarka skuli rask vegna framkvæmda í samræmi við lög um landgræðslu. Einnig að sérstaklega skuli reynt að komast hjá raski á kolefnisríkum jarðvegi.

Loks eru settar fram tillögur að viðmiðum og leiðbeiningum vegna umferðar fólks og ökutækja þar sem útgangspunktur er að umferð skuli miða að því að hið náttúrulega umhverfi beri umferðina sem þar er og að ástand þess breytist ekki eða hnigni af völdum álags.

Með setningu þessarar reglugerðar verður kominn grundvöllur til að staðfesta að framleiðsla og starfsemi sem byggir á nýtingu lands fari fram með sjálfbærum hætti.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Boð um þátttöku (73)

Umsjónaraðili

Skrifstofa sjálfbærni

mar@mar.is