Til umsagnar
30.11.2023–5.1.2024
Í vinnslu
6.1.2024–
Samráði lokið
Mál nr. S-248/2023
Birt: 30.11.2023
Fjöldi umsagna: 13
Annað
Matvælaráðuneytið
Landbúnaður
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnarinnar er áhersla lögð á öfluga íslenska matvælaframleiðslu. Meðal áhersluverkefna sem þar eru tilgreind er mótun áætlunar til eflingar lífrænnar framleiðslu.
Í september 2022 undirritaði matvælaráðherra samning við ráðgjafafyrirtækið Umhverfisráðgjöf Íslands ehf. (Environice) um gerð tillagna að aðgerðaáætlun til eflingar lífrænnar framleiðslu. Áætlunin var unnin í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá 2021 en þar er áhersla lögð á öfluga íslenska matvælaframleiðslu. Meðal áhersluverkefna sem þar eru tilgreind er mótun heildstæðrar áætlunar til eflingar lífrænnar framleiðslu.
Eftirspurn eftir vottuðum lífrænum vörum fer vaxandi, bæði innanlands og utan, og því er efling lífrænnar framleiðslu liður í að skapa ný atvinnutækifæri og auka verðmætasköpun í byggðum landsins. Ísland hefur dregist aftur úr nágrannalöndunum á þessu sviði. Hérlendis er mun lægra hlutfall landbúnaðarlands með lífræna vottun en í löndunum í kring og flest bendir til að markaðshlutdeild lífrænnar framleiðslu sé einnig lægri hér, en þær upplýsingar liggja ekki fyrir. Stjórnvöld í nágrannalöndunum, þ.á m. framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, hafa sett sér krefjandi markmið um aukna hlutdeild lífrænna afurða, bæði í landbúnaðarframleiðslu landanna og á neytendamarkaði. Efling lífrænnar framleiðslu hérlendis er því liður í að styrkja samkeppnisstöðu Íslands gagnvart nágrannalöndunum og um leið samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu gagnvart innflutningi.
Sú tillaga að aðgerðaáætlun til eflingar lífrænnar framleiðslu á Íslandi sem hér er sett fram er unnin í matvælaráðuneytinu en byggir á tillögum Umhverfisráðgjafar Íslands ehf. (Environice). Við mótun aðgerðaáætlunarinnar var einnig tekið mið af annarri stefnumótun á málefnasviðinu, áherslum matvælaráðherra og matvælaráðuneytis. Margar tillagnanna eru þess eðlis að þær snerta einnig starfssvið annarra ráðuneyta og stofnana og því er samstarf fleiri aðila lykillinn að því að hægt verði að hrinda tillögunum í framkvæmd. Í viðauka er að finna lista yfir þær aðgerðir sem heyra undir starfssvið annarra ráðuneyta og eru þær ekki hluti af aðgerðaáætluninni á þessu stigi. Þeim verður vísað til viðkomandi ráðuneyta og þau hvött til þess að koma þeim til framkvæmda.
Tillögur að einstökum aðgerðum byggja á samtölum við fjölmarga aðila innanlands, taka mið af annarri stefnumótun íslenskra stjórnvalda eins og áður segir og styðjast við sambærilega stefnumótun á hinum Norðurlöndunum og á vettvangi Evrópusambandsins.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa landbúnaðar
mar@mar.is