Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 3.–10.11.2023

2

Í vinnslu

  • 11.11.2023–18.2.2024

3

Samráði lokið

  • 19.2.2024

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-224/2023

Birt: 3.11.2023

Fjöldi umsagna: 13

Drög að frumvarpi til laga

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla

Frumvarp til laga um kílómetragjald vegna notkunar bifreiða (hreinorku- og tengiltvinnbifreiða)

Niðurstöður

Sjá niðurstöðuskjal.

Málsefni

Fjármála- og efnahagsráðuneytið kynnir til umsagnar drög að frumvarpi til laga um kílómetragjald vegna notkunar bifreiða (hreinorku- og tengiltvinnbifreiða).

Nánari upplýsingar

- Fjölgun vistvænna og sparneytinna bifreiða hefur leitt til þess að skatttekjur ríkissjóðs af ökutækjum og eldsneyti hafa rýrnað umtalsvert og munu halda áfram að lækka á næstu árum verði ekkert að gert. Samhliða þeirri þróun hefur myndast misræmi í núverandi gjaldtökukerfi milli þeirra sem nýta samgönguinnviðina. Annars vegar eru tekjur af gjaldtöku á ökutæki og eldsneyti, einkum vörugjöld, teknar að fjara smám saman út sökum þess að fram hafa komið nýir orkugjafar og sparneytnari ökutæki. Hins vegar hafa stjórnvöld markað þá stefnu að auka notkun hreinna orkugjafa í samgöngum og hraða þannig orkuskiptum, m.a. með verulegum skattastuðningi síðustu ár. Ört stækkandi hópur þeirra sem eiga og reka bifreiðar hefur því verið að greiða afar lítið fyrir afnot sín af samgöngukerfinu. Fyrir vikið stendur Ísland hins vegar flestum þjóðum framar í orkuskiptum í vegasamgöngum.

- Á sama tíma er fyrir hendi viðvarandi þörf fyrir, og áform um, að byggja upp og viðhalda vegakerfinu. Sú þörf mun síst minnka í fyrirsjáanlegri framtíð með vaxandi íbúafjölda, grósku í ferðaþjónustu og tilheyrandi umferð. Við þessari þróun þarf að bregðast og innleiða nýtt einfaldara, gagnsærra og sjálfbærara fyrirkomulag gjaldtöku til framtíðar. Þannig verður tryggð betri samsvörun á milli slíkra tekna og áframhaldandi uppbyggingar og viðhalds vegakerfisins.

- Lagt er til að fyrsta skrefið verði stigið í lögfestingu á nýju tekjuöflunarkerfi af ökutækjum og eldsneyti með því að taka upp kílómetragjald frá og með 1. janúar 2024 vegna notkunar rafmagns- og vetnisbifreiða annars vegar og tengiltvinnbíla hins vegar á vegakerfinu. Til einföldunar er lagt upp með að lögin verði í upphafi einskorðuð við fólks- og sendibifreiðar.

- Gert er ráð fyrir að meginreglan verði sú að skráðir eigendur gjaldskyldra bifreiða verði gjaldskyldir, þó með ákveðnum frávikum.

- Þá er gert ráð fyrir að fjárhæð kílómetragjalds vegna aksturs rafmagns- og vetnisbifreiðar verði 6 kr. á hvern kílómetra og 2 kr vegna tengiltvinnbifreiða.

- Lagt er upp með að ríkisskattstjóri geri áætlun um akstur á hverju tímabili sem eigandi/umráðamaður geti breytt í smáforriti eða á vefsetrinu Ísland.is, þannig að áætlun og greiðsla fari fram með svipuðum hætti og gjöld fyrir þjónustu veitu- og orkufyrirtækja vegna sölu á heitu vatni og rafmagni til heimila og fyrirtækja.

- Að lokum fari fram álagning/uppgjör og innheimta út frá skráningu gjaldskylds aðila eða faggiltrar skoðunarstofu á á stöðu akstursmælis þar sem ríkisskattstjóri leggur leggur kílómetragjald á gjaldskyldan aðila vegna þeirra liðnu mánaða sem ekki hefur verið lagt á.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Skrifstofa skattamála

fjr@fjr.is