Til umsagnar
3.–20.11.2023
Í vinnslu
21.11.2023–25.1.2024
Samráði lokið
26.1.2024
Mál nr. S-220/2023
Birt: 3.11.2023
Fjöldi umsagna: 14
Áform um lagasetningu
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið
Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar
Alls bárust 12 umsagnir um áform um lagasetningu. Umsagnir bárust frá Háskóla Íslands, Samtökum iðnaðarins, Crowberry Capital, Landsvirkjun, Rannís – Rannsóknarmiðstöð Íslands, Kerecis, Alþýðusambandi Íslands, Viðskiptaráði, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og þremur einstaklingum. Tillit var tekið til margra sjónarmiða sem komu fram í umsagnarferlinu, svo sem varðandi nauðsynlega þekkingu stjórnarmanna, fjölbreytileika og sveigjanleika í starfsemi sjóðsins.
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið kynnir til samráðs áform um lagasetningu vegna sameiningar Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Kríu, sprota- og nýsköpunarsjóðs.
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra vinnur að sameiningu og endurskoðun sjóða sem falla undir málefnasvið ráðuneytisins. Einn liður í ofangreindri endurskoðun er starfsemi fjárfestingarsjóða á vegum háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins en í dag eru starfandi tveir sjóðir sem hafa það hlutverk að fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum og sérhæfðum sjóðasjóðum, annars vegar Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins (NSA) og hins vegar Kría, sprota- og nýsköpunarsjóður.
Í skjali því sem nú er kynnt er farið yfir áform ráðherra um að sameina krafta NSA og Kríu þannig að úr verði öflugur fjárfestingarsjóður sem leggur áherslu á stuðning við sprota á fyrstu stigum sem og fjárfestingar í sjóðasjóðum. Stuðningur sjóðsins skuli aðallega koma fram á þeim sviðum þar sem markaðsbrestur er til staðar og skortur á einkafjármagni ásamt því að horft verði til þess að styðja við verkefni sem geta átt þátt í lausn samfélagslegra áskorana.
Stefnt er að því að sameining Kríu og NSA skapi sterka einingu í anda EIFO (áður Vækstfonden) í Danmörku og Tesi í Finnlandi, sem eru dæmi um opinbera sjóði sem stuðla að virku fjármögnunarumhverfi og fjárfesta í sjóðum og fyrirtækjum til þess. Slíkur sjóður muni geta boðið upp á afurðir sem henta breytileika umhverfisins og þörfum á hverjum tíma, hvort sem um er að ræða aðstoð við upprennandi sjóðstjóra (e. emerging managers), aðkomu að fyrstu stigum fjármögnunar með þátttöku í sjóðasjóðum, eða með breytanlegum lánum til fyrirtækja sem eru of ung fyrir hefðbundna vísisjóði eða á annan hátt liggja fyrir utan áhugasvið þeirra. Þetta muni nýr sjóður geta gert betur en Kría og NSA geta sem sjálfstæðar einingar auk þess sem sameining mun skila meiri hagkvæmni í rekstri.
Mikilvægt er að opinber stuðningur í formi fjárfestinga leiði til þess að atvinnulíf eflist hér á landi, samkeppnishæfni landsins aukist og fleiri fyrirtæki vaxi upp úr nýsköpunarumhverfinu og myndi sterka stoð undir hugverkadrifið atvinnulíf. Svo það megi verða þarf stuðningsumhverfið að vera skilvirkt, sveigjanlegt og beina fjármagni þangað sem þörfin er mest hverju sinni.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa stefnumörkunar og alþjóðamála
hvin@hvin.is