Til umsagnar
20.9.–31.10.2023
Í vinnslu
1.11.2023–19.12.2024
Samráði lokið
20.12.2024
Mál nr. S-167/2023
Birt: 20.9.2023
Fjöldi umsagna: 31
Drög að stefnu
Innviðaráðuneytið
Húsnæðis- og skipulagsmál
Innviðaráðuneytið kynnir til umsagnar hvítbók um skipulagsmál – drög að landsskipulagsstefnu til 15 ára og aðgerðaráætlun til fimm ára ásamt umhverfismatsskýrslu.
Innviðaráðherra hyggst á yfirstandandi haustþingi leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára.
Fyrsta landsskipulagsstefnan var samþykkt á Alþingi árið 2016, með gildistíma til 2026. Í samræmi við ákvæði 10. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og lög nr. 30/2023 um stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála er nú unnið að endurskoðun á stefnunni.
Gildandi landsskipulagsstefna var lögð fram á Alþingi haustið 2015. Á þeim tíma var umhverfi stefnumótunar ríkisins með öðrum hætti og hafa stjórnvöld sett fram nýja stefnu á ýmsum málefnasviðum, þar má helst nefna loftslagsmálin. Með lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015, hefur stefnumótun ríkisins jafnframt fleygt fram. Endurskoðun landsskipulagstefnu tekur nú mið að fleiri áætlunum en gildandi stefna og setur ný viðfangsefni í samhengi við skipulag landnotkunar og nýtingar haf- og strandsvæða. Jafnframt hefur Ísland undirgengist ýmsar alþjóðaskuldbindingar sem hafa þýðingu fyrir skipulagsmál. Kröfur til skipulagsgerðar eru því meiri nú en þegar gildandi landsskiplagsstefna var mótuð.
Endurskoðunin er unnin með hliðsjón af gildandi landsskipulagsstefnu, áherslum innviðaráðherra og samráði við sveitarfélög, íbúa sveitarfélaga þ.m.t. ungt fólk, ráðuneyti og aðra hagaðila. Þá er horft til annarra stefna og áætlana stjórnvalda sem áhrif hafa á þróun byggðar og landnýtingu.
Landsskipulagsstefna felur í sér stefnu ríkisins í skipulagsmálum fyrir landið í heild og er útfærð með tilliti til skipulags landnotkunar og haf- og strandsvæða. Landsskipulagsstefnu er fyrst og fremst framfylgt með skipulagsgerð sveitarfélaga. Samkvæmt skipulagslögum skulu sveitarfélög byggja á landsskipulagsstefnu við gerð skipulagsáætlana.
Einnig fylgir greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála til upplýsinga. Greinagerðina er einnig að finna á slóðinni: https://www.landsskipulag.is/ferlid/skjol/
Mikilvægt er að fá fram skoðanir og álit almennings og annarra hagaðila og eru því öll hvött til að kynna sér efni hvítbókarinnar og senda umsögn sína inn í samráðsgáttina. Á grundvelli hvítbókar verður unnin þingsályktunartillaga um landsskipulagsstefnu til 15 ára og fimm ára aðgerðaáætlun.
Stefnt er að því að tillaga til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu verði lögð fram á haustþingi.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa húsnæðis- og skipulagsmála
irn@irn.is