Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 27.4.–18.5.2023

2

Í vinnslu

  • 19.5.2023–9.11.2025

3

Samráði lokið

  • 10.11.2025

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-88/2023

Birt: 27.4.2023

Fjöldi umsagna: 5

Drög að stefnu

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfismál

Tillögur vinnuhóps um stefnumótun um lengri gönguleiðir

Niðurstöður

Drög að tillögum hópsins voru lagðar fram í samráðsgátt stjórnvalda. Málið var í umsagnarferli í þrjár vikur, frá 27.04.2023 til 18.05.2023. Alls bárust 5 umsagnir. Samantekt á innsendum umsögnum er að finna í viðauka V við lokaskýrslu vinnuhópsins. Vinnuhópurinn hittist á fundi 30.05.2023 til að fara yfir efni umsagnanna og taka afstöðu til þeirra. Á fundinum var ákveðið að gera þrjár efnislegar breytingar á tillögum hópsins út frá innkomnum umsögnum. Þessum breytingum, sem varða flokkun gönguleiða og nýja tillögu um utanumhald um verkefnið, er lýst í megintexta skýrslunnar.

Málsefni

Tillögur vinnuhóps að stefnumótun um lengri gönguleiðir, unnar skv. landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

Nánari upplýsingar

Vinsælar lengri gönguleiðir á borð við Laugaveg hafa verið undir vaxandi álagi undanfarin ár og gera má ráð fyrir áframhaldandi fjölgun göngufólks. Hér eru kynntar til umsagnar tillögur vinnuhóps um stefnumótun um gönguleiðir, tvær dagleiðir og lengri. Einn megintilgangur stefnumótunarinnar er að búa til ramma sem nýst geti umsjónaraðilum lengri gönguleiða til að búa í haginn fyrir aukinn fjölda gesta.

Vinnuhópurinn starfar í samræmi við þingsályktun nr. 27/148 um stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum – verkefnaáætlun 2019-2021. Þingsályktunin á stoð í lögum nr. 20/2016 um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Í grein 5.1.1. í ofangreindri þingsályktun er hlutverki vinnuhópsins lýst:

„Skipaður verði verði vinnuhópur til að vinna stefnumótun um gönguleiðir og þá umgjörð sem þeim þarf að skapa. Unnið verði að tilraunaverkefni um ferðamannaleiðina Laugaveg frá Landmannalaugum til Þórsmerkur. Vinnuhópurinn leggi fram stefnumótandi tillögur að umbótum á löggjöf varðandi ferðamannaleiðir, fyrirkomulag í skipulagi, formlega umsjón, erfiðleikastig og þjónustu- og öryggisstig og öðrum atriðum sem lúta að þessu viðfangsefni“.

Vinnuhópur um stefnumótun um gönguleiðir, undir stjórn umhverfis- og auðlindaráðuneytisins (núverandi umhverfis-, orku og loftslagsráðuneyti) var stofnaður í desember 2020 með fulltrúum frá Umhverfisstofnun, Ferðamálastofu, Skógræktinni, Landgræðslunni, Skipulagsstofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ferðafélagi Íslands og Markaðsstofum landshluta. Fulltrúi frá Náttúrufræðistofnun Íslands bættist við í júní 2021.

Vinnuhópurinn lítur svo á að umboð hans nái til þess að vinna fram tillögur að kerfi sem umsjónaraðilar gönguleiða geti hagnýtt sér við að skilgreina þjónustustig og magn og tegund innviða sem stefnt er að á viðkomandi gönguleið.

Að loknu samráðsferli mun vinnuhópurinn skila skýrslu um vinnu sína til ráðherra. Ráðgert er að skýrslan samanstandi af kafla um tillögur hópsins og kafla um tilraunaverkefni það sem kveðið er á um í grein 5.1.1. ofangreindrar þingsályktunar, auk inngangs- og niðurlagskafla. Tillögur hópsins eru efni þessa samráðs.

Tillögur vinnuhópsins lúta að eftirfarandi atriðum:

• Ábyrgð á kerfinu í heild, inntaka lengri gönguleiða inn í kerfið

• Skilgreiningu umsjónaraðila með lengri gönguleiðum, hlutverk þeirra og ábyrgð

• Flokkun lengri gönguleiða eftir þjónustustigi og magni innviða

• Mat á ástandi lengri gönguleiða og þeirra nánasta umhverfis

• Aðgengi að upplýsingum um erfiðleikastig, þjónustu og öryggisstig lengri gönguleiða

• Stefnu- og upplýsingaskjöl fyrir lengri gönguleiðir

Að loknu samráðstímabili mun vinnuhópurinn fara yfir innkomnar umsagnir og taka afstöðu til þeirra. Ritaður verður kafli í skýrsluna um samráðið, framkomnar athugasemdir og afstöðu hópsins til þeirra. Að því loknu mun vinnuhópurinn afhenda ráðherra tillögur sínar til frekari meðferðar.

Óskað er eftir umsögnum og ábendingum um tillögur hópsins.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa stefnumótunar og innleiðingar

herdis.schopka@urn.is