Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 25.11.–12.12.2022

2

Í vinnslu

  • 13.12.2022–9.1.2023

3

Samráði lokið

  • 10.1.2023

Mál nr. S-231/2022

Birt: 25.11.2022

Fjöldi umsagna: 9

Áform um lagasetningu

Forsætisráðuneytið

Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Áform um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun

Niðurstöður

Níu umsagnir bárust um áformin og verða þær hafðar til hliðsjónar við vinnslu frumvarps til laga um mannréttindastofnun. Drög að frumvarpinu verða birt í samráðsgátt þegar þau liggja fyrir.

Málsefni

Fyrirhugað er að koma á fót sjálfstæðri innlendri mannréttindastofnun (e. National Human Rights Institution) sem uppfyllir svokölluð Parísarviðmið um mannréttindastofnanir.

Nánari upplýsingar

Fyrirhugað er að leggja fram frumvarp um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun á Alþingi haustið 2023. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að slíkri stofnun skuli komið á fót.

Sjálfstæðri innlendri mannréttindastofnun er ætlað víðtækt hlutverk við að efla og vernda mannréttindi. Hún þarf að uppfylla viðmiðunarreglur Sameinuðu þjóðanna um slíkar stofnanir eða svokölluð Parísarviðmið.

Dæmi um almenn skilyrði sem mannréttindastofnun þarf að uppfylla samkvæmt Parísarviðmiðunum:

• Almenningur þarf að geta leitað til stofnunarinnar.

• Stofnunin skal hafa víðtækt umboð til að vinna að eflingu og vernd mannréttinda.

• Kveðið skal á um hlutverk stofnunarinnar í lögum.

• Áhersla er lögð á dreifingu valds og að þau sem komi að ákvarðanatöku endurspegli borgaralegt samfélag.

• Fjárhagslegt og stofnanabundið sjálfstæði stofnunarinnar skal vera tryggt.

Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur að nokkru leyti gegnt hlutverki sjálfstæðrar innlendrar mannréttindastofnunar hér á landi. Hún uppfyllir þó ekki fyrrnefnd Parísarviðmið, enda gera þau kröfu um sjálfstæða stofnun sem komið er á fót með lögum. Er lagasetning því metin nauðsynleg.

Ísland hefur fengið fjölda áskorana frá innlendum og erlendum aðilum um að koma sjálfstæðri mannréttindastofnun á fót. Sem dæmi má nefna að íslenska ríkið samþykkti fjölmörg tilmæli um að koma slíkri stofnun á fót í síðustu tveimur allsherjarúttektum á stöðu mannréttindamála (UPR) hér á landi, árin 2016 og 2022. Þá leggur samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland fullgilti árið 2016, þá skyldu á íslenska ríkið að slík stofnun sé til staðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 33. gr. samningsins. Er tilvist slíkrar stofnunar því talin forsenda þess að hægt sé að lögfesta samninginn hér á landi.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (2)

Umsjónaraðili

Skrifstofa jafnréttis- og mannréttindamála

elisabet.gisladottir@for.is