Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 17.–31.8.2022

2

Í vinnslu

  • 1.9.2022–

Samráði lokið

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-145/2022

Birt: 17.8.2022

Fjöldi umsagna: 22

Drög að frumvarpi til laga

Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál

Frumvarp til laga um tónlist

Málsefni

Markmiðið með frumvarpinu að efla umgjörð fyrir sköpun og flutning tónlistar á landinu öllu, marka heildarramma fyrir málefni tónlistar og búa henni hagstæð skilyrði.

Nánari upplýsingar

Frumvarpsdrög þessi eru samin í menningar- og viðskiptaráðuneytinu. Brýn þörf var talin á að skýra lagaramma um tónlist með heildarlöggjöf líkt og gert hefur verið fyrir önnur listasvið. Með frumvarpinu er leitast við að lög um tónlist verði skýr, samræmd á milli listgreina og í samræmi við gildandi löggjöf. Lögin taka einnig mið af stefnu um tónlist sem unnin var samhliða frumvarpinu.

Ríkisstjórn Íslands hefur undanfarin ár lagt áherslu á að efla menningu og skapandi greinar með markvissri stefnumótun, aðgerðaáætlunum, miðlun og auknum fjárframlögum. Í nýjum stjórnarsáttmála segir "umhverfi tónlistargeirans á Íslands verður endurskoðað í framhaldi af skýrslu starfshóps þar um" og var horft til þessa við mótun frumvarpsins.

Mikil vinna var lögð í að kortleggja umhverfi tónlistar á Íslandi á síðasta kjörtímabili og sem hluti af þeirri vinnu var settur saman starfshópur hvers hlutverk var að koma með tillögu að umgjörð Tónlistarmiðstöðvar, endurskoða sjóðakerfi tónlistar og leggja drög að tónlistarstefnu. Í skýrslu er starfshópurinn skilaði af sér er lögð til stofnun Tónlistarmiðstöðvar og sameining þriggja sjóða tónlistar undir einum hatti þar sem í ljós kom skörun á verkefnum sjóðanna og skortur á yfirsýn. Nýr sjóður mun einfalda styrkjaumhverfi tónlistar og gera það skilvirkara.

Markmið með lögum um tónlist er að uppfæra og sameina löggjöf um tónlist í eina heildarlöggjöf og útfæra miðstöð tónlistar. Frá gildistöku áðurnefndra laga hefur lagaumhverfi á Íslandi gjörbreyst með tilkomu fjölmargra laga sem tekið hefur verið tillit til við samningu frumvarpsins. Sem dæmi má nefna lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018. Höfð var hliðsjón af lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, og lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015, við útfærslu ákvæða um tónlistarmiðstöð. Þá var litið til laga á öðrum sviðum lista sem fyrirmynda við gerð frumvarpsins.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Menningar- og viðskiptaráðuneytið

mvf@mvf.is