Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 25.2.–8.3.2021

2

Í vinnslu

  • 9.3.2021–5.1.2023

3

Samráði lokið

  • 6.1.2023

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-57/2021

Birt: 25.2.2021

Fjöldi umsagna: 3

Drög að frumvarpi til laga

Forsætisráðuneytið

Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna (fjölgun mismununarþátta), nr. 85/2018

Niðurstöður

Haft var samráð við eftirfarandi aðila við gerð frumvarpsins: Öryrkjabandalagið, Þroskahjálp, Samtökin '78, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Jafnréttisstofu, félagsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, dómsmálaráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið. Þrjár umsagnir bárust í samráðsgátt stjórnvalda, frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands. Allir umsagnaraðilar studdu fyrirhugaða lagasetningu. Sjá nánar í niðurstöðuskjali.

Málsefni

Lagt er til að við lög nr. 85/2018 um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna verði bætt við mismununarþáttunum trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu.

Nánari upplýsingar

Með frumvarpi þessu er lagt til að í íslenskri löggjöf verði kveðið á um meginregluna um jafna meðferð einstaklinga, ekki einungis óháð kynþætti og þjóðernisuppruna heldur jafnframt óháð trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018.

Bann við mismunun samkvæmt lögum nr. 85/2018 gildir á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar og eru einstök svið sérstaklega tilgreind til áherslu. Engin breyting er lögð til varðandi þau svið sem lögin skulu ná til. Um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð framangreindum mismununarþáttum gilda önnur lög, þ.e. lög nr. 86/2018.

Frumvarpið er liður í innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hér á landi en Ísland undirritaði samninginn 30. mars 2007 og var hann fullgiltur 23. september 2016. Þess er vænst að þessi breyting á lögum nr. 85/2018 sem frumvarpið leggur til leiði til aukinnar réttarverndar fyrir fólk sem telur sér mismunað á grundvelli trúar, lífsskoðunar, aldurs, fötlunar, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna og kyntjáningar utan vinnumarkaðar og leiði þar með til aukins jafnréttis í samfélaginu.

Lagt er til að bætt verði við lögin tveimur nýjum ákvæðum, annars vegar vegna fötlunar (viðeigandi aðlögun, sbr. 7. gr. a, sbr. a-liður 5. gr.) og hins vegar vegna aldurs (frávik vegna aldurs, sbr. 7. gr. b, sbr. b-liður 5. gr.). Þessar sérreglur eru sambærilegar sérreglum þeim sem fjallað er um í lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, sbr. 10. gr. og 12. gr. þeirra laga.

Lagðar eru til breytingar á lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, sem þykja nauðsynlegar í kjölfar frumvarps þessa sem og laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, laga um jafna stöðu og jafna meðferð kynjanna, nr. 150/2020 og laga um stjórnsýslu jafnréttismála, nr. 151/2020.

Lagt er til að verði frumvarpið samþykkt taki lögin þegar gildi. Þó er jafnframt lagt til að ákvæði laganna skuli ekki gilda um mismunandi meðferð á grundvelli aldurs fyrr en 1. júlí 2023. Er þetta lagt til þannig að nægur tími gefist til að fara yfir aldurstengd ákvæði í öðrum lögum, stjórnvaldsfyrirmælum og samningum og gera breytingar á þeim, ef þörf krefur, til samræmis við ákvæði frumvarpsins.

Einnig er lagt til í ákvæði til bráðabirgða að skipaður verði starfshópur sem skal fjalla sérstaklega um mismunun vegna tengsla (e. discrimination by association).

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Skrifstofa jafnréttismála

postur@for.is