Til umsagnar
24.2.–9.3.2020
Í vinnslu
10.3.–21.7.2020
Samráði lokið
22.7.2020
Mál nr. S-47/2020
Birt: 24.2.2020
Fjöldi umsagna: 10
Drög að frumvarpi til laga
Matvælaráðuneytið
Markaðseftirlit og neytendamál
Frumvarpsdrögin voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda 24. febrúar – 9. mars 2020. Alls bárust 10 umsagnir um frumvarpsdrögin. Í umsögnum var almennt lýst ánægju með markmið frumvarpsins en umsagnirnar kölluðu þó á breytingar á frumvarpsdrögunum, sbr. umfjöllun í samráðskafla frumvarpsins á vef Alþingis. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi 18. apríl 2020 og var samþykkt sem lög þann 29. júní 2020.
Markmið frumvarpsins er að auka traust á og tryggja gagnsæi í upplýsingagjöf fyrirtækja sem almennt má telja að séu þjóðhagslega mikilvæg og varða hagsmuni almennings.
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á I. kafla laga um ársreikninga, nr. 3/2006 og I. kafla laga um endurskoðendur og endurskoðun, nr. 94/2019, þar sem finna má skilgreiningu á einingu tengdri almannahagsmunum. Einnig eru gerðar breytingar á VI. kafla laga um ársreikninga nr. 3/2006 er lýtur að upplýsingum í skýrslu stjórnar. Þá er í frumvarpinu lögð til breyting á X. kafla laga nr. 3/2006 er lýtur að skyldu ársreikningaskrár til að birta ársreikninga félaga með gjaldfrjálsum hætti.
Frumvarpið er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem miða að því að auka traust á íslensku atvinnulífi, m.a. með því að gera ríkari kröfur um gagnsæi í rekstri stærri óskráðra fyrirtækja. Þær lagabreytingar sem frumvarpið vísar til lúta fyrst og fremst að fyrirtækjum sem varða hagsmuni almennings og geta haft kerfislæg áhrif í íslensku efnahagslífi. Í tengslum við þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa ráðuneyti unnið greiningu á því hvers konar atvinnugreinar og fyrirtæki hér á landi geta talist þjóðhagslega mikilvæg og var sú vinna lögð til grundvallar við gerð frumvarpsins. Með frumvarpinu er einnig brugðist við tilmælum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem hvatt hefur íslensk stjórnvöld til að auka gagnsæi í rekstri stærri fyrirtækja.
Í því skyni að ná framangreindum markmiðum um að auka traust og upplýsingaskyldu félaga sem talin eru varða hagsmuni almennings er í frumvarpinu lagt til að skilgreining á einingu tengdri almannahagsmunum, sem finna má í lögum um ársreikninga og í lögum um endurskoðendur og endurskoðun, verði breytt þannig að hún nái til fleiri félaga en núgildandi lög gera ráð fyrir. Samkvæmt núgildandi lögum eru einingar tengdar almannahagsmunum félög sem skráð eru á skipulegan verðbréfamarkað en einnig lánastofnanir, vátryggingafélög og lífeyrissjóðir. Slík félög eru talin hafa umtalsvert vægi í opinberu tilliti, t.d. vegna þess hvers eðlis reksturinn er, vegna stærðar eða vegna fjölda starfsmanna. Verði frumvarpið að lögum munu tiltekin þjóðhagslega mikilvæg stærri félög bætast þar við á sviði sjávarútvegs, stóriðju, orkumála, fjarskipta, flugsamgangna og millilandaflutninga. Frumvarpið leitast því við að undirstrika þjóðhagslegt mikilvægi slíkra félaga og auka þær kröfur sem gerðar eru til þeirra um gagnsæi í rekstri.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa orku, iðnaðar og viðskipta
anr@anr.is