Til umsagnar
21.2.–5.3.2020
Í vinnslu
6.3.–2.12.2020
Samráði lokið
3.12.2020
Mál nr. S-46/2020
Birt: 21.2.2020
Fjöldi umsagna: 4
Drög að frumvarpi til laga
Forsætisráðuneytið
Almanna- og réttaröryggi
Í kjölfar samráðsins var lagt fram frumvarp á Alþingi, sjá hlekk. Gerð er grein fyrir niðurstöðum samráðsins í frumvarpinu en málið varð ekki útrætt. Ekki eru uppi áform um að leggja málið fram að nýju.
Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á upplýsingalögum í því skyni að bæta og skýra réttarstöðu þriðja aðila, þ.e. þess sem getur átt hagsmuna að gæta af því að veittur verði aðgangur að tilteknum upplýsingum.
Með frumvarpinu eru lagðar til þrenns konar breytingar á upplýsingalögum nr. 140/2012.
Í fyrsta lagi er lögð til breyting á orðalagi 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins í gildandi lögum getur sá sem hefur beiðni um aðgang að upplýsingum til afgreiðslu skorað á þann sem upplýsingarnar varða að upplýsa hvort hann telji að þær eigi að fara leynt. Frestur til að svara skal vera sjö dagar. Sú breyting sem hér er lögð til er fyrst og fremst til að árétta skyldu opinberra aðila til þess að afla afstöðu þriðja aðila ef þeir hafi í hyggju að byggja ákvörðun um synjun á aðgangi að gögnum á 9. gr. eða 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, enda sé afstaða þriðja aðila bersýnlega óþörf við rannsókn málsins. Þannig stuðlar breytingin að því að rannsókn máls til ákvörðunartöku um rétt til aðgangs að upplýsingum uppfylli skilyrði 10. gr. stjórnsýslulaga. Er því lagt til að þeim sem hefur beiðni til afgreiðslu verði skylt að afla afstöðu þriðja aðila nema það sé bersýnilega óþarft.
Þá er lagt til nýmæli, sem verði lokamálsliður 1. mgr. 23. gr. upplýsingalaga, er lýtur að því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál beri að senda þriðja aðila afrit úrskurðar þegar kveðið er á um skyldu til að afhenda gögn sem varða mikilvæga og virka hagsmuni hans.
Loks er lagt til það nýmæli í 1. mgr. 24. gr. upplýsingalaga að þriðji aðili geti krafist frestunar réttaráhrifa slíks úrskurðar.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Forsætisráðuneytið
oddur.thorri.vidarsson@for.is