Til umsagnar
13.–27.2.2020
Í vinnslu
28.2.–7.4.2020
Samráði lokið
8.4.2020
Mál nr. S-34/2020
Birt: 13.2.2020
Fjöldi umsagna: 35
Drög að frumvarpi til laga
Forsætisráðuneytið
Landbúnaður
Fjöldi gagnlegra athugasemda kom fram, sjá nánar í meðfylgjandi skjali þar sem gefið er yfirlit yfir umsagnir og afstaða tekin til einstakra sjónarmiða eftir föngum. Frumvarpið hefur verið lagt fram á Alþingi, sjá hlekkinn "Skjal að loknu samráði".
Markmið frumvarpsins er að skapa stjórnvöldum betri yfirsýn og möguleika til að stýra þróun eignarráða og nýtingar fasteigna, þ.m.t. jarða, í samræmi við landkosti og með hagsmuni samfélagsins og komandi kynslóða að leiðarljósi.
Í þessu skyni eru lagðar til breytingar á eftirtöldum fjórum lagabálkum: Lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna nr. 19/1966, þinglýsingalögum nr. 39/1978, lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 og jarðalögum nr. 81/2004.
Efni frumvarpsins er í meginatriðum eftirfarandi:
1. Undanþáguheimildir vegna skilyrða fyrir fasteignakaupum aðila sem búsettir eru í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins eru skýrðar nánar, en ákvæði núgildandi laga um það efni eru almenn og óljós.
2. Tryggt verði að kaupverð fasteignar komi fram í þinglýstu afsali, en kaupverð er meðal annars forsenda ákvörðunar fasteignamats.
3. Landeignaskrá á vegum Þjóðskrár Íslands verði vettvangur fyrir samræmda opinbera skráningu á landupplýsingum.
4. Sjónarmiðum um náttúruvernd, byggðaþróun og sjálfbærni verði gert hærra undir höfði í markmiðsákvæði jarðalaga. Sett verði inn skilyrði um samþykki fyrir aðilaskiptum að landi í skilgreindum tilfellum. Á það meðal annars við ef kaupandi lögbýlis á fyrir fleiri lögbýli sem eru samanlagt 50 hektarar eða meira að stærð, ef fasteign er 350 hektarar eða stærri og ef kaupandi og tengdir aðilar eiga fasteignir sem eru samanlagt 10.000 hektarar eða meira að stærð. Í sömu tilfellum þarf einnig að afla samþykkis fyrir breytingu á yfirráðum yfir lögaðila sem er eigandi lands, svo sem ef eignarhlutur í fyrirtæki skiptir um hendur að hluta eða í heild. Þá er gert ráð fyrir aukinni upplýsingaskyldu tiltekinna lögaðila um eignarhald þeirra. Loks eru sett skýrari skilyrði fyrir afskráningu lögbýla og lausn lands úr landbúnaðarnotum.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa löggjafarmála
for@for.is