Til umsagnar
24.9.–9.10.2019
Í vinnslu
10.–12.10.2019
Samráði lokið
13.10.2019
Mál nr. S-234/2019
Birt: 24.9.2019
Fjöldi umsagna: 3
Annað
Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla
Þrjár umsagnir bárust um breyttar reglur um auglýsingar starfa. Í öllum tilvikum var tekið undir markmiðin sem breytingunum er ætlað að ná. Mótteknar umsagnir gefa ekki tilefni til breytinga á regludrögunum
Reglurnar gilda um auglýsingar lausra starfa hjá stofnunum ríkisins. Reglurnar eru settar samkvæmt heimild í 3. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og koma í stað reglna nr. 464/1996.
Gert er ráð fyrir að nýjar reglur um auglýsingar lausra starfa komi í stað núgildandi reglna frá 1996, með síðari breytingum.
Efnislegar breytingar eru tvíþættar. Annars vegar eru gerðar breytingar í ljósi breyttra aðstæðna á fjölmiðlamarkaði og hins vegar til að auðvelda framboð hlutastarfa hjá ríkinu fyrir fólk með skerta starfsorku. Þá er efnisröðun og orðalagi breytt lítillega í því sjónarmiði að bæta leiðbeiningagildi reglnanna.
Það er tilefni til að breyta fyrirkomulagi auglýsinga lausra starfa hjá ríkinu í ljósi breytts umhverfis á auglýsingamarkaði og auka hagkvæmni í reglubundnu auglýsingaferli. Auglýsingatími verður styttur úr tveimur vikum frá birtingu í dagblaði yfir í tíu daga að lágmarki frá birtingu á sérstöku vefsvæði fyrir laus störf hjá ríkinu (starfatorg.is). Með þessu er fallið frá skyldu um að auglýsa í dagblaði á landsvísu og gildistími auglýsinga verður styttur um fjóra daga. Eftir sem áður er stofnunum frjálst að auglýsa í dagblöðum sem og með öðrum hætti.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að stjórnvöld ætli að skipuleggja framboð hlutastarfa hjá hinu opinbera fyrir fólk með skerta starfsgetu. Með það að markmiði er bætt við nýrri undanþáguheimild frá auglýsingaskyldu. Í skýrslu samráðshóps um breytt framfærslukerfi almannatrygginga sem birt var á vef félagsmálaráðuneytisins 5. maí sl. eru slík störf kölluð sveigjanleg störf þar sem vinnutími og verkefni eru aðlöguð að starfsgetu einstaklingsins. Ríkið hefur leitað samstarfs við Vinnumálastofnun og VIRK, starfsendurhæfingarsjóð. Fyrrnefnda stofnunin annast ráðgjöf og vinnumiðlun fyrir öryrkja og einstaklinga með skerta starfsgetu og sú síðarnefnda er með sérstaka atvinnulífsráðgjafa sem aðstoða einstaklinga við að finna störf við hæfi. Að óbreyttu hindra núgildandi reglur um auglýsingar fyrirætlanir um fjölgun starfa fyrir fólk með skerta starfsgetu.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Kjara- og mannauðssýsla
postur@fjr.is