Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 24.5.–7.6.2019

2

Í vinnslu

  • 8.6.2019–11.8.2021

3

Samráði lokið

  • 12.8.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-136/2019

Birt: 24.5.2019

Fjöldi umsagna: 5

Drög að reglugerð

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfismál

Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 124/2015 um brennisteinsinnihald í tilteknu fljótandi eldsneyti

Niðurstöður

Að loknu samráði var reglugerð nr. 1084/2019 um (3.) breytingu á reglugerð nr. 124/2015 um brennisteinsinnihald í tilteknu fljótandi eldsneyti birt í B-deild Stjórnartíðinda 6. desember 2019.

Málsefni

Drög að breytingu á reglugerð um brennisteinsinnihald í tilteknu fljótandi eldsneyti sem felur í sér bann við notkun svartolíu innan íslenskrar landhelgi frá og með 1. janúar 2020.

Nánari upplýsingar

Fyrirhugaðar breytingar taka til reglugerðar nr. 124/2015 um brennisteinsinnihald í tilteknu fljótandi eldsneyti. Leyfilegt brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti sem notað er innan landhelgi Íslands og innsævis verður lækkað úr 3,5% niður í 0,1% hinn 1. janúar 2020. Sama dag taka einnig þær breytingar gildi að innan mengunarlögsögunnar en utan landhelginnar, mun leyfilegt brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti lækka niður í 0,5%. Það er í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands samkvæmt viðauka VI í MARPOL-samningnum sem Ísland fullgilti í febrúar 2018.

Með breytingunum verður leyfilegt brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti á Íslandi 0,1% innan landhelginnar og á innsævi, þ.e. einnig í fjörðum og flóum. Þegar komið er lengra út á sjó og út fyrir landhelgina má brennisteinsinnihaldið hins vegar ekki vera meira en 0,5%. Til samanburðar var brennisteinsinnihald í svartolíu sem var markaðssett hér á landi árið 2017 á bilinu 0,64-1,94%, en meðaltalið á heimsvísu var samkvæmt gögnum frá Alþjóðasiglingamálastofnuninni (IMO) 2,59%.

Þær breytingar sem lagt er til að verði gerðar munu leiða til þess að sambærilegar kröfur munu gilda um brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti í íslenskri landhelgi og nú gilda á svokölluðum ECA-svæðum í Eystrasalti og Norðursjó (e. Emission Control Areas). Þetta hefur í för með sér að notkun svartolíu í landhelgi Íslands er útilokuð nema notaðar séu viðurkenndar aðferðir til að draga úr losun brennisteinsdíoxíðs.

Innsendar umsagnir (5)

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Helga Jónsdóttir

helga.jonsdottir@uar.is