Til umsagnar
8.–18.2.2019
Í vinnslu
19.2.–21.3.2019
Samráði lokið
22.3.2019
Mál nr. S-42/2019
Birt: 8.2.2019
Fjöldi umsagna: 32
Drög að frumvarpi til laga
Forsætisráðuneytið
Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála
Umsagnirnar voru almennt afar jákvæðar og fjölmargir aðilar fögnuðu framlagningu þess og töldu það tvímælalaust fela í sér miklar réttarbót fyrir trans og intersex fólk. Ýmsir aðilar gerðu þó athugasemdir við að í frumvarpinu væri ekki fjallað um breytingar á kyneinkennum barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Þeirra á meðal voru Samtökin ˈ78, félögin Trans Ísland og Intersex Ísland, umboðsmaður barna, UNICEF, Amnesty International og Barnaheill. Var á það bent að í þessu fælist ósamræmi þar sem eitt af markmiðum frumvarpsins væri að tryggja rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi en það ætti þó einungis við um einstaklinga 16 ára og eldri. Eins og fram kemur í frumvarpinu var það ætlunin að frumvarpið hefði að geyma grein sem fjallaði um breytingar á kyneinkennum barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Ekki náðist samkomulag innan hópsins sem samdi frumvarpsdrögin um framsetningu og efni þeirrar greinar og var jafnframt mat sérfræðinga að ýmis atriði í því sambandi þyrfti að gaumgæfa betur. Var því ákvörðun ráðuneytisins að leggja frumvarpið fram án greinar um þetta efni en kveða á um skipun starfshóps sem hefði meðal annars það verkefni að gera tillögu um slíka grein. Samtökin ˈ78 og félögin Trans Ísland og Intersex Ísland voru samstíga í umsögnum sínum og settu, auk athugasemda um ofangreint atriði, fram ábendingar varðandi takmörkun á heimild til að breyta skráningu kyns, sbr. 7. gr. frumvarpsins, um hæfisskilyrði lögfræðings sérfræðinefndar skv. 9. gr. og skipan starfshóps samkvæmt ákvæði til bráðabirgða. Einnig lögðust þessi félög gegn því að teymi Landspítala og BUGL, sbr. 12. og 13. gr., yrðu kennd við kynósamræmi og töldu að fremur ætti að nota orðið kynvitund, enda væri það hlutlaust, lýsandi, ólíklegt til að úreldast og feli ekki í sér tiltekna sjúkdómsgreiningu. Farið hefur verið að flestum tillögum félaganna.
Í frumvarpinu er komið til móts við ný og breytt viðhorf til opinberrar skráningar kyns og stuðlað að réttarbótum trans og intersex einstaklinga. Lagt er til að kveðið verði á um rétt einstaklinga til þess að skilgreina sjálfir kyn sitt og miða þannig að því að tryggja að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar.
Lagt er til að íslenskri löggjöf verði kveðið á um um rétt einstaklinga til þess að skilgreina sjálfir kyn sitt og miða þannig að því að tryggja að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar. Einnig er lögunum ætlað að standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi.
Í frumvarpi þessu er staðfestur réttur einstaklinga til að breyta kynskráningu sinni í samræmi við eigin upplifun og án þess að þurfa að sæta skilyrðum um sjúkdómsgreiningu og læknismeðferð eða uppfylla kröfur um atferlisþjálfun líkt og núverandi lög kveða á um. Miðað er að því að virða og styrkja sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins þar sem eigin skilningur á kynvitund er lagður til grundvallar ákvarðanatöku varðandi opinbera skráningu. Með frumvarpinu er því komið til móts við ný og breytt viðhorf til opinberrar skráningar kyns og stuðlað að réttarbótum trans og intersex einstaklinga með því að heimila einstaklingum að skilgreina kyn sitt á eigin forsendum og ráða skráningu þess, enda séu aðrir ekki betur til þess bærir.
Lagt er til að lögin taki þegar gildi en að aðilar sem skrásetji kyn skuli hafa sex mánaða frest frá gildistöku laganna til að aðlaga skráningarform, eyðublöð, skilríki og þess háttar.
Jafnframt er lagt til að lög um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda, nr. 57/2012 falli úr gildi.
Lagt er til að sérhver einstaklingur sem náð hefur 15 ára aldri hafi rétt til að fá breytt skráningu á kyni sínu í þjóðskrá og barn yngra en 15 ára geti með fulltingi forsjáraðila sinna fengið breytt opinberri skráningu kyns síns. Samkvæmt frumvarpinu mun Þjóðskrá Íslands annast breytingu á skráðu kyni og gert er ráð fyrir að breytingin verði ekki háð neinum skilyrðum. Óheimilt verði að gera læknisfræðilegar meðferðir að skilyrði fyrir slíkri breytingu (t.d. skurðaðgerð, lyfjameðferð, hormónameðferð eða aðra læknismeðferð, svo sem geðlæknismeðferð eða sálfræðimeðferð). Þetta fyrirkomulag felur í sér grundvallarbreytingu frá gildandi lögum um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda, nr. 57/2012.
Samhliða breytingu á skráðu kyni öðlast einstaklingurinn sem breytinguna gerir rétt til að breyta nafni sínu. Um nafnbreytingu fer samkvæmt ákvæðum laga um mannanöfn nr. 45/1996. Þá á fólk rétt á því að skilríki þess endurspegli kyn þess eins og það er skráð í þjóðskrá. Jafnframt er kveðið á um rétt einstaklings sem hefur fengið breytt skráningu kyns síns í þjóðskrá til þess að fá endurútgefin gögn sem varða menntun og starfsferil, svo sem prófskírteini og þess háttar, þannig að þau samræmist breytingunni. Skylda til að láta slík gögn í té hvílir jafnt á opinberum aðilum sem einkaaðilum.
Breyting á skráningu kyns samkvæmt frumvarpinu og samhliða nafnbreyting skal einungis heimiluð einu sinni nema sérstaklega standi á. Einstaklingur sem hefur fengið breytt opinberri skráningu kyns síns nýtur allra þeirra réttinda að lögum sem skráð kyn ber með sér.
Frumvarpið gengur jafnframt út frá því að þeir einstaklingar sem frumvarpið tekur til eigi greiðan aðgang að þeirri heilbrigðisþjónustu sem það þarf á að halda og að óheimilt verði að gera varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum einstaklings 16 ára eða eldri án skriflegs samþykkis. Á Landspítala skal starfa teymi sérfræðinga um kynósamræmi og lagt er til að óformlegt teymi sem starfað hefur á BUGL og hefur veitt börnum sem upplifa kynósamræmi nauðsynlega aðstoð undanfarin ár verði lögfest og að skipun þess verði tryggð.
Mikilvægt er að sérstakt tillit verði tekið til réttinda barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Lagt er því til í bráðabirgðaákvæði frumvarps þessa að ráðherra skipi starfshóp sem hafi það hlutverk að semja frumvarp til laga um breytingar á lögum um kynrænt sjálfræði, verði frumvarp þetta að lögum, þar sem mælt verði fyrir um meginsjónarmið og reglur sem gilda skulu um breytingar á kyneinkennum barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni.
Gildandi lög gera það ekki að skilyrði fyrir breytingu á kynskráningu að viðkomandi hafi gengist undir ófrjósemisaðgerð. Sá möguleiki er því fyrir hendi að karlmaður gangi með og ali barn og að kona geti barn. Þetta er í sjálfu sér ekki ný staða en möguleikinn gæti orðið enn raunhæfari verði frumvarp þetta að lögum enda er í því gerður skýr greinarmunur á breytingu á kynskráningu í samræmi við kynvitund einstaklings annars vegar og breytingu á kyneinkennum hins vegar sem viðkomandi kann – eða kann ekki – að óska eftir. Enn hafa ekki verið gerðar breytingar á íslenskum lögum til að samræma þau þessum veruleika en brýnt er að gera það til að tryggja réttindi einstaklinga í þessari stöðu. Með þetta í huga er lagt til að ráðherra setji á fót starfshóp sem hafi það verkefni að fjalla um og gera tillögur um breytingar á öðrum lögum til að tryggja réttindi trans fólks, ekki síst varðandi barneignir og foreldrastöðu
Umsagnir voru birtar að loknum umsagnarfresti. Skoða umsagnir.
Skrifstofa jafnréttismála
postur@for.is