Til umsagnar
28.11.–19.12.2018
Í vinnslu
20.12.2018–15.1.2019
Samráði lokið
16.1.2019
Mál nr. S-241/2018
Birt: 28.11.2018
Fjöldi umsagna: 27
Drög að stefnu
Heilbrigðisráðuneytið
Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála
Drög að heilbrigðisstefnu til ársins 2030 voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda dagana 28. nóvember til 19. desember 2018. Alls bárust 27 umsagnir frá heilbrigðisstofnunum og menntastofnunum, fagfélögum, sjúkingasamtökum, sveitarfélögum og einstaklingum. Umsagnirnar voru gagnlegar og tekið var tillit til þeirra eins og kostur var. Þá munu þær jafnframt nýtast vel við gerð aðgerðaáætlana og framkvæmd og eftirfylgd heilbrigðisstefnunnar. Efnislegar breytingartillögur fjölluðu mest um atriði sem umsagnaraðilar vildu sjá meira af í stefnunni, eins og málefni aldraðra, heimahjúkrun, endurhæfingu, fíkn og lýðheilsu svo eitthvað sé nefnt. Í nokkrum tilvikum var um málefnalegan ágreining að ræða sem ekki þarf að koma á óvart í svo mikilvægum og flóknum málaflokki. Í nokkrum tilvikum leiddu umsagnir til þess að texta stefnunnar var breytt til að lýsa betur stöðu sem æskileg er fyrir árið 2030 og einnig var leitast við að skýra texta stefnunnar betur til að samræma ólík stjórnarmið hagaðila hennar. Nokkuð margir umsagnaraðilar sáu ástæðu til að brýna stjórnvöld til að tryggja fjármagn til að stefnan nái fram að ganga. Þá þökkuðu margir fyrir að vinna við mótun heilbrigðisstefnu hafi verið sett af stað en einnig var sett fram gagnrýni á að samráð við vinnu stefnunnar hefði mátt vera meira. Heilbrigðisráðherra mun leggja heilbrigðisstefnuna fyrir Alþingi sem tillögu til þingsályktunar á vorþingi 2019.
Heilbrigðisstefna til ársins 2030 er sett fram með það að leiðarljósi að íslenskur almenningur búi við örugga og hagkvæma heilbrigðisþjónustu þar sem aðgengi allra landsmanna sé tryggt.
Framtíðarsýn fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu er sett fram á eftirfarandi hátt:
• Íslensk heilbrigðisþjónusta er á heimsmælikvarða og lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir er hluti af allri þjónustu, sérstaklega þjónustu heilsugæslunnar.
• Árangur heilbrigðisþjónustunnar er metinn með því að mæla gæði þjónustunnar, öryggi hennar, hversu aðgengileg hún er og hvað hún kostar.
Heilbrigðisstefnan sem hér er mörkuð nær til ársins 2030 og við vinnu hennar hefur meðal annars verið horft til stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Þessi skýrsla fjallar meðal annars um heilsu og heilbrigðiskerfið í víðara samhengi, þróun norrænna heilbrigðiskerfa, helstu áskoranir og tækifæri heilbrigðisþjónustunnar til framtíðar ásamt því að draga upp framtíðarsýn fyrir grunnstoðir íslenskrar heilbrigðisþjónustu. Til að lýsa nánar framtíðarsýninni eru í stefnunni sett fram sjö lykilviðfangsefni sem eru:
• Forysta til árangurs
• Rétt þjónusta á réttum stað
• Fólkið í forgrunni
• Virkir notendur
• Skilvirk þjónustukaup
• Gæði í fyrirrúmi
• Hugsað til framtíðar
Til að hrinda heilbrigðisstefnu til ársins 2030 í framkvæmd verður gerð áætlun um aðgerðir til fimm ára í senn og verður sú aðgerðaáætlun uppfærð árlega meðan heilbrigðisstefnan er í gildi.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa ráðuneytisstjóra
hrn@hrn.is