Prentað þann 7. apríl 2025
896/2005
Reglugerð um breytingu á reglugerð um fjárhag og áhættustýringu Íbúðalánasjóðs, nr. 544/2004.
1. gr.
Við 3. gr. reglugerðarinnar bætast orðin: í samræmi við viðauka I.
2. gr.
Við reglugerðina bætist svohljóðandi viðauki:
VIÐAUKI I
Viðurkennd viðskipti og mótaðilar vegna áhættustýringar.
Íbúðalánasjóður skal beita hefðbundnum áhættustýringaraðferðum til að tryggja vandaða áhættu- og fjárstýringu og jafnvægi í inn- og útgreiðslum sjóðsins sem nánar eru útfærðar í áhættustýringarstefnu. Í því skyni er Íbúðalánasjóði heimilt að ávaxta handbært fé á bankareikningum, með viðskiptum með verðbréf eða með öðrum viðurkenndum fjárfestingaleiðum til skemmri eða lengri tíma.
Til annarra viðurkenndra fjárfestingarleiða skv. 1. mgr. teljast meðal annars kaup á fjármálagerningum eða skuldarviðurkenningum útgefnum af mótaðilum skv. A–E-flokki hér á eftir eða hlutdeildarskírteinum í verðbréfasjóðum sem fjárfesta í verðbréfum útgefnum af þeim. Einnig samningar um kaup á fasteignaveðbréfum skv. F-flokki eða vaxtaberandi eignum sem byggja á greiðsluflæði frá slíkum bréfum.
Flokkar mótaðila og eigna eru:
A. | Ríkissjóður Íslands eða ríkisstofnanir. |
B. | Lánastofnanir með fjárfestingarlánshæfismat sem er að minnsta kosti BBB frá Moody’s eða sambærilegt frá öðrum matsfyrirtækjum. |
C. | Fyrirtæki í OECD-ríkjum með langtímalánshæfismat sem er að minnsta kosti A1 frá Moody’s eða sambærilegt frá öðrum matsfyrirtækjum. |
D. | Innlend fjármálafyrirtæki, önnur en þau sem getið er í B-lið. |
E. | Sveitarfélög. |
F. | Skuldabréf tryggð með veði í íbúðarhúsnæði, útgefin af einstaklingum, fyrirtækjum eða fjármálafyrirtækjum. Skuldabréfin skulu almennt vera innan 80% af söluandvirði viðkomandi eignar, en þó aldrei umfram 90%. |
Stjórn Íbúðalánasjóðs setur vikmörk fjárfestingar fyrir hvern flokk í áhættustýringarstefnu sjóðsins í ljósi mats á mótaðilaáhættu. Mörkin skulu vera tvíþætt og taka annars vegar til áhættustýringar sjóðsins og þarfar hans á að gæta jafnvægis í líftíma eigna og skulda og greiðsluflæðis og hins vegar taka til skammtímafjárstýringar sjóðsins.
3. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 4. mgr. 11. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum, að fenginni umsögn stjórnar Íbúðalánasjóðs og Fjármálaeftirlitsins, tekur þegar gildi.
Félagsmálaráðuneytinu, 19. september 2005.
Árni Magnússon.
Guðjón Bragason.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.