Vernd persónuupplýsinga á netinu
Það er mikilvægt að við séum meðvituð um það hvaða upplýsingum við kjósum að deila á samfélagsmiðlum og á netinu almennt. Þetta á bæði við um upplýsingar um okkur sjálf og aðra – ekki síst þegar um er að ræða börn eða aðra einstaklinga sem geta ekki sjálfir haft áhrif á eða fylgst með miðlun upplýsinganna.
Ef óprúttnir aðilar komast ólöglega yfir persónuupplýsingar okkar, stöndum við berskjölduð gagnvart árásum þeirra. Um leið og þeir hafa komist yfir einhverjar upplýsingar eiga þeir auðveldara með að blekkja okkur til að gefa upp meiri upplýsingar sem þeir geta nýtt sér enn frekar.
Öryggi á netinu
Fyrirtæki og stofnanir sem safna og nota þínar upplýsingar bera ábyrgð á að tryggja öryggi þeirra. Það er þó ýmislegt sem hægt er að gera til að vernda sig gegn misnotkun á persónuupplýsingum sínum eða tryggja að friðhelgi sé virt.
Hvernig er hægt að vernda persónuupplýsingar sínar á netinu?
Einstaklingar geta gert ráðstafanir til að vernda persónuupplýsingar sínar á netinu. Nota skal sömu skynsemi og notuð er þegar beðið er um persónulegar upplýsingar á pappír eða í persónu.
Meðal þess sem hægt er að íhuga:
hver er að safna upplýsingum?
hvað verður gert við þær?
eru þær nauðsynlegar?
hverjar eru hugsanlegar afleiðingarnar?
Persónuverndarstefna og notendaskilmálar
Athugaðu persónuverndarstefnu eða notendaskilmála viðkomandi fyrirtækis til að komast að því hvað á að gera við upplýsingarnar þínar. Persónuverndarstefna er yfirlýsing sem á að segja þér:
hver er að safna upplýsingum þínum,
í hvað á að nota þær, og
hvort þeim verði deilt með öðrum.
Ef fyrirætlanir eru ekki skýrar skaltu biðja viðkomandi fyrirtæki um frekari upplýsingar áður en þú gefur upp persónulegar upplýsingar, sérstaklega ef þær eru viðkvæmar.
Fyrirtæki gæti viljað nota persónuupplýsingar þínar til að senda þér markaðsefni eða gefa öðrum upplýsingar þínar til markaðssetningar. Þú átt að fá tækifæri til að afþakka eða hætta að fá slíkt markaðsefni.
Góð ráð til að auka öryggi
Allir ættu að vera vakandi fyrir hættum á netinu, svo sem persónuþjófnaði, svikapóstum og ósamþykktri miðlun upplýsinga.
Það er mikilvægt að:
hafa sterkt lykilorð
vera varkár með hvaða upplýsingar eru settar á netið
lesa skilmála áður en persónuupplýsingar eru gefnar upp