Fara beint í efnið

Verklagsreglur Fiskræktarsjóðs

Verklagsreglur 2023 vegna úthlutunar 2024

I. Um Fiskræktarsjóð

Fiskræktarsjóður starfar á grundvelli laga um Fiskræktarsjóð og er á forræði atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, sbr. 1. gr. laga nr. 72/2008 (með síðari breytingum) um Fiskræktarsjóð.

Meginhlutverk sjóðsins er að veita lán og styrki til verkefna sem þjóna þeim markmiðum að viðhalda og efla lífríki í ám og vötnum ásamt því að auka verðmæti veiði úr þeim.

II. Hverjir geta fengið styrk?

Styrkir Fiskræktarsjóðs eru ætlaðir veiðifélögum, einstaklingum, rannsókna- og háskólastofnunum og öðrum lögaðilum.

Fiskræktarsjóður gerir kröfu um að fyrir liggi fjármögnun verkefnisins eða verkhlutans, sem sótt er um styrk til.

Veittir eru styrkir til eins árs í senn. Ef um framhaldsumsókn er að ræða, er gerð krafa um að framvinduskýrsla fylgi styrkumsókn.

III. Umsóknarfrestur 1. mars ár hvert

Umsóknir um lán og styrki úr Fiskræktarsjóði skal senda stjórn sjóðsins fyrir 1. mars ár hvert. Umsóknir sem berast eftir 1. mars eru ekki teknar fyrir.

IV. Mat á umsóknum

Fiskræktarsjóður lýtur fjögurra manna stjórn sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Hún leggur faglegt mat á umsóknir, forgangsraðar verkefnum og ákveður styrkupphæð.

Við mat á umsóknum er lögð áhersla á nýnæmi rannsókna og framkvæmda til að ná sem best markmiðum sjóðsins. Horft er til hæfni umsækjenda til að leysa verkefnið, þekkingar, reynslu, aðstöðu og raunhæfni áætlana (verk-, kostnaðar- og fjármögnunaráætlunar). Einnig er litið til samstarfs við fagaðila þegar ákvörðun er tekin um styrkveitingu og horft til þess hvort verkefnin séu í þágu heildarhagsmuna.

Fiskræktarsjóði er heimilt að afla umsagna Fiskistofu um umsóknir um lán eða styrki þyki þess þörf. Fiskræktarsjóði er jafnframt heimilt að ákveða að greiða úthlutanir í áföngum eftir framvindu verkefna.

V. Eftirlit

Fiskræktarsjóður getur farið fram á að styrkþegi sýni fram á að fjármögnun verkefnisins sé í samræmi við umsókn áður en til greiðslu styrks kemur. Fiskræktarsjóður gerir ráð fyrir eftirfylgni með þeim verkefnum sem hann hefur stutt. Styrkhafar skulu upplýsa Fiskræktarsjóð skriflega fyrir febrúar um stöðu framkvæmda sem styrktar voru á fyrra ári. Fiskræktarsjóður hefur rétt til að krefja styrkhafa um endurgreiðslu hafi framkvæmdir ekki hafist innan árs frá úthlutun.

VI. Úthlutun

Ákvarðanir um styrki og lán úr sjóðnum teknar af stjórn sjóðsins. Um máls með ferð við veitingu lána og styrkja gilda ákvæði stjórnsýslulaga.

VII. Upplýsingaskylda Fiskræktarsjóðs

Þar sem um opinberan sjóð er að ræða upplýsir Fiskræktarsjóður á vef Fiskistofu um þá styrki sem hann veitir. Almennt munu upplýsingarnar þó takmarkaðar við upplýsingar um nafn viðtakenda, fjárhæð, heiti verkefnis og markmið. Aðrar upplýsingar í umsóknum er varða fjárhags- eða viðskiptahagsmuni umsækjenda og annarra lögaðila er tengjast verkefnum á vegum Fiskræktarsjóðs verður hins vegar farið með sem trúnaðarmál.

VIII. Gildistími

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 72/2008 (með síðari breytingum), um Fiskræktarsjóð og gilda vegna úthlutunar 2024.

Þjónustuaðili

Fiski­stofa