Fara beint í efnið

Verðmerkingar og réttur neytenda

Verð sem gefið er upp til neytenda á að vera rétt og endanlegt.

Almennt um verð

Uppgefið verð á að vera rétt og endanlegt. Virðisaukaskattur, þóknun, bókunargjald, frakt – hvers konar endurgreiðsla án tillits til heitis – eiga að vera innifalin í uppgefnu verði.

Sé vara eða þjónusta auglýst með afborgunarkjörum á bæði staðgreiðsluverð og heildarverð með vöxtum og kostnaði að koma fram.

Aðeins má auglýsa útsölu eða aðra sölu á lækkuðu verði ef um raunverulega verðlækkun er að ræða. Upprunalegt verð á að vera greinilegt.

Verðmerking á vörum

Allar vörur í verslunum og sýningargluggum eiga að vera skýrt verðmerktar, annað hvort á vörunni sjálfri eða við vöruna. Þetta gildir um allar vörur sem seldar eru neytendum og tekur til allra verslana.

Verðmerking á þjónustu

Þjónustufyrirtæki, eins og til dæmis veitingahús, hársnyrtistofur og iðnaðarmenn, eiga að hafa uppi skýra verðskrá eða skilti með verði á allri þjónustu sem fyrirtækið veitir.

Þá verða þjónustufyrirtæki, eftir því sem við verður komið, að hafa verðskrá við inngöngudyr þar sem gefið er upp verð á algengustu þjónustu sem er á boðstólum.

Verðupplýsingar eiga að vera hjá afgreiðslukassa eða á öðrum áberandi stað þar sem þjónustan er veitt.

Rangt verð á sölustað

Almenna reglan er að verslanir eigi að selja vörur og þjónustu á því verði sem kemur fram á verðmerkingum. Þetta gildir þó ekki ef sjá má, eða það ætti að sjást, að um mistök er að ræða. Það gildir heldur ekki ef röng verðmerking er ekki á ábyrgð fyrirtækisins heldur hafi til dæmis annar viðskiptavinur breytt verðmerkingu eða fært vörur til.

Almennt fylgja verslanir því að neytendur fái vörur á því verði sem kemur fram í hillu sé ósamræmi á milli þess verðs og verðs í afgreiðslukassa, þar sem neytendur velja vöruna á grundvelli verðmerkingarinnar.

Rangt verð í auglýsingum

Sé vara eða þjónusta auglýst á of lágu verði, til dæmis vegna prentvillu, er verðið ekki bindandi. Ef seljandi leiðréttir verðið áður en viðskiptin eiga sér stað, er því ekki hægt að krefjast þess að vara eða þjónusta sé seld á því verði sem fram kemur í auglýsingu.

Neytandinn getur krafist skaðabóta ef rangt verð er gefið upp af ásetningi.

Vert að skoða

Lög og reglugerðir

Þjónustuaðili

Neyt­enda­stofa