Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Almenn auglýsing Loftslags- og orkusjóðs 2025

Loftslags- og orkusjóður auglýsir styrki til verkefna sem stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsaloftegunda á beinni ábyrgð Íslands eða fela í sér nýsköpun og innleiðingu á nýrri tækni á sviði umhverfis- orku og loftslagsmála.

Umsóknarfrestur er til 1. júní 2025.

Styrkir Loftslags- og orkusjóðs 2025

Áhersla er lögð á verkefni sem þurfa fjárhagslegum stuðningi sjóðsins að halda til að raungerast. Styrkumsóknir eru afgreiddar samkvæmt reglugerð, nr. 1566/2024, um Loftslags- og orkusjóð.

Heildarupphæð til úthlutunar er 1.300 m.kr.

1.000 m.kr. verður veitt í styrki til verkefna sem styðja beint eða óbeint við markmið ríkisstjórnarinnar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands. Áhersla er lögð á verkefni sem mæla má beint til samdráttar í losun eða verkefni sem styðja við það markmið.

Orkuskipti í samgöngum

  • Uppbygging hraðhleðslustöðva (150 kW+) og styrking hleðslunets með tilliti til þungaflutninga.

  • Uppbygging orkuinnviða fyrir tæki, þungaflutninga og hópbifreiðar, þar með talið flotabíla og stór atvinnutæki.

  • Uppbygging orkuinnviða fyrir almenningssamgöngur til að styðja orkuskipti í strætisvögnum og öðrum farartækjum í rekstri hins opinbera.

  • Áfyllingarstöðvar fyrir raf- eða lífeldsneyti.

Orkuskipti í rekstri eða orkusparnaður

  • Tækjabúnaður sem nýtir endurnýjanlega orku í stað jarðefnaeldsneytis.

  • Lausnir sem stuðla að orkusparnaði og aukinni orkunýtni í atvinnulífi og almennum rekstri

  • Innviðir og tækjastyrkir fyrir vistvæna orkunotkun í höfnum.

  • Orkuskiptaverkefni í skipum og bátum.

Hringrásarhagkerfið

  • Aðgerðir sem draga úr urðun lífræns úrgangs eða minnka losun frá úrgangi

  • Verkefni sem stuðla að endurvinnslu úrgangs, einkum sem næst upprunastað

  • Verkefni sem draga úr hráefnisnotkun eða úr myndun úrgangs.

Innleiðing nýrrar tækni eða nýsköpun

Allt að 300 m.kr. verður veitt í styrki til verkefna sem fela í sér innleiðingu á nýrri tækni eða nýsköpun á sviði loftslagsmála. Verkefnin krefjast almennt töluverðrar fjárfestingar til að ná markaðshæfni og óvissa er um áhrif þeirra á markmið landsins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Verkefni sem falla í þennan flokk eru m.a:

  • Nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála

  • Framleiðsla og dreifing rafeldsneytis og lífeldsneytis (t.d. vetni, rafmetan, e-metanól).

  • Nauðsynlegur búnað fyrir geymslu, flutning, afgreiðslu og nýtingu raf- eða lífeldsneytis (t.d. þjöppur, lagnir, geymslur, dreifikerfi).

  • Verkefni sem tengjast heildstæðum orkuskiptalausnum, svo sem vetnisdölum eða öðrum samþættum orkuskiptaverkefnum.

Loftslags- og orkusjóður

Umsýsla

Loftslags- og orkusjóður er í umsýslu Umhverfis- og orkustofnunar

Umhverfis- og orku­stofnun

Rangárvellir 2 - hús 8

603 Akureyri