Stefna um skipulag haf- og strandsvæða er sett fram í landsskipulagsstefnu. Landsskipulagsstefna kveður á um samræmda stefnu ríkisins í skipulagsmálum í heild og tekur til landsins alls og haf- og strandsvæða.
Skipulag á haf- og strandsvæðum er eitt þeirra níu lykilviðfangsefna sem þar eru sett fram. Markmið stefnunnar eru þrjú, um vernd umhverfis og náttúru, velsæld samfélags og samkeppnishæft atvinnulíf. Undir hverju markmiði eru settar fram áherslur ásamt tilmælum um framfylgd þeirra fyrir skipulag á haf- og strandsvæðum í kringum landið, ásamt miðhálendi, í dreifbýli og þéttbýli. Þau tilmæli stefnunnar sem eiga við um skipulag á haf- og strandsvæðum erum merkt (H) í þingsályktun.
Unnið er að útgáfu landsskipulagsstefnu þar sem áherslum og tilmælum um framkvæmd þeirra eru skipt í kafla, eftir því á hvaða svæði þau eiga við. Í útgáfunni verður því hægt að nálgast öll framfylgdarákvæði sem eiga við um skipulag haf- og strandsvæða á einum stað.
Aðgerðaáætlun sem fylgir stefnunni, felur jafnframt í sér tiltekin verkefni til að hrinda markmiðum hennar í framkvæmd, sem sum hver snúa beint eða óbeint að skipulagi á haf- og strandsvæðum. Aðgerðir aðgerðaáætlunar sem snúa beint að skipulagi haf- og strandsvæða eru eftirfarandi:
Unnið verði strandsvæðisskipulag fyrir Eyjafjörð, sbr. lög um skipulag haf- og strandsvæða. Gert er ráð fyrir að skipulagssvæðið afmarkist af Siglunesi í vestri og Bjarnarfjalli í austri. Ráðherra skipi svæðisráð um gerð strandsvæðisskipulags á svæðinu í samvinnu við Skipulagsstofnun. Svæðisráð beri ábyrgð á gerð strandsvæðisskipulags.
Unnið verði strandsvæðisskipulag fyrir Skjálfandaflóa, sbr. lög um skipulag haf- og strandsvæða. Gert er ráð fyrir að skipulagssvæðið afmarkist af Bjarnarfjalli í vestri og Tjörnestá í austri. Ráðherra skipi svæðisráð um gerð strandsvæðisskipulags á svæðinu í samvinnu við Skipulagsstofnun. Svæðisráð beri ábyrgð á gerð strandsvæðisskipulags.
Unnin verði greining á því hvaða svæði skulu hafa forgang við gerð strandsvæðisskipulags. Við þá vinnu verði haft samráð við landshlutasamtök sveitarfélaga og ráðgefandi aðila samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða. Með ráðgefandi aðilum er vísað til fagstofnana sem fara með málaflokka sem varða nýtingu og vernd á haf- og strandsvæðum og vatnasvæðisnefndir samkvæmt lögum um stjórn vatnamála.
Greint verði hver ber ábyrgð á mismunandi ákvörðunum um nýtingu eða vernd hafsvæða utan strandsvæða eins og þau eru skilgreind í lögum um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018, og hvernig ferli ákvarðanatöku er uppbyggt. Á grunni greiningar verði gerð tillaga að skilvirku ferli við töku ákvarðana sem tryggir aðkomu þeirra stjórnvalda og hagsmunaaðila sem fara með ólík málefni nýtingar og verndar á hafsvæðum.