Fara beint í efnið

Útreikningur á búsetuhlutfalli vegna lífeyrisréttinda

Búsetuhlutfall er útreikningur á búsetu einstaklings á Íslandi og segir til um það hver réttindi einstaklings eru við greiðslur frá Tryggingastofnun.

Almennar upplýsingar

Almennt er miðað við að full lífeyrisréttindi myndist við 40 ára búsetu á Íslandi milli 16 og 67 ára aldurs. Ef 40 ára búsetu er ekki náð, er miðað við hve löng búsetan á Íslandi hefur verið. Greiðslur frá TR eru reiknaðar í samræmi við búsetu.

Dæmi: Ef þú hefur búið á Íslandi í 20 ár á aldrinum 16 til 67 ára er búsetuhlutfall 50%. Þín lífeyrisréttindi eru því 50%.

Atvinna erlendis og söfnun réttinda

Ef þú hefur búið og starfað erlendis hefur það áhrif á útreikning á búsetuhlutfalli þínu.

  • Ef þú bjóst og starfaðir erlendis greiddir þú almennt almannatryggingar í því landi sem þú bjóst og starfaðir í og safnaðir lífeyrisréttindum í því landi.

  • Ef þú starfaðir erlendis en bjóst á Íslandi greiddir þú almennt almannatryggingar í landinu sem þú starfaðir í.

Undanþágur eru fyrir útsenda starfsmenn og aðra sem hafa fengið A1 vottorð eða tryggingayfirlýsingu.

Nám erlendis og söfnun réttinda

  • Ef þú varst tímabundið í námi erlendis er almenna reglan sú að þú hafir fallið undir íslenskar almannatryggingar. Undantekningar eru fyrir námsmenn á Norðurlöndunum sem verða að flytja lögheimili sitt til búsetulandsins. Lesa meira um almannatryggingar og nám í útlöndum.

  • Ef þú varst tímabundið í námi erlendis og vannst í búsetulandinu er almenna reglan að þú hafir greitt almannatryggingar í landinu sem þú starfaðir í. Undanþága er fyrir námsmenn sem hafa fengið staðfest skattalegt heimilisfesti fyrir námsmenn erlendis.

Þjónustuaðili

Trygg­inga­stofnun