Fara beint í efnið

Lögreglan rannsakar sakamál. Ef lögreglan veit um, eða grunar, að refsivert brot hafi verið framið verður hún að hefja rannsókn. Þá skiptir ekki máli hvort kæra hefur borist eða ekki.

Markmið rannsóknarinnar er að afla allra nauðsynlegra gagna. Því næst er hægt að ákveða hvort það eigi að sækja einhvern til saka eða ekki.

Skýrslutökur

Brotaþoli

Við skýrslutöku hjá lögreglu er markmiðið að brotaþoli fái tækifæri til að greina frá atvikum og að fram komi allar þær upplýsingar sem lögregla telur nauðsynlegar í þágu rannsóknar málsins.

Skýrslutakan fer yfirleitt fram á lögreglustöð en stundum fer skýrslutaka fram annars staðar svo sem á vettvangi brots. Skýrslutakan er hljóðrituð eða tekin upp bæði í hljóði og mynd.

Lögregla skrifar skýrslu um það sem brotaþolinn hafði um málið að segja, ýmist þannig að lögregla gerir samantekt um framburð brotaþola eða að framburður brotaþola er skrifaður upp. Það er misjafnt hvort tekin er ein skýrsla eða fleiri af brotaþola á meðan lögregla rannsakar málið. Skýrsla af brotaþola er meðal þeirra gagna sem liggja fyrir í rannsóknargögnum lögreglu.

Börn

Þegar lögregla rannsakar mál þar sem grunur er um að barn yngra en 15 ára hafi orðið fyrir kynferðislegu eða líkamlegu ofbeldi er það dómari sem ákveður hvar skýrslutakan fari fram.

Venjulega fara slíkar skýrslutökur fram í sérútbúnu herbergi í Barnahúsi. Sérfræðingur Barnahúss eða lögreglu ræðir þar við barnið.

Dómari, réttargæslumaður barnsins, fulltrúi ákæruvalds, verjandi sakbornings og fulltrúi barnaverndar fylgjast svo með skýrslutökunni í gegnum sjónvarp og geta beint spurningum til spyrilsins. Skýrslan er tekin upp í hljóði og mynd og er hluti af rannsóknargögnum málsins.

Markmiðið er að skapa góðar aðstæður fyrir skýrslutöku og koma í veg fyrir að barn þurfi að endurtaka frásögn sína. Ef málið fer fyrir dóm þarf barnið því almennt ekki að gefa skýrslu aftur fyrir dómi.

Í Barnahúsi er meðal annars aðstaða til að framkvæma læknisfræðilega skoðun á börnum.

Upplýsingar um þjónustu Barnahúss

Grunaður einstaklingur

Við rannsókn málsins tekur lögregla skýrslu af sakborningi þar sem honum er kynnt hvert sakarefni málsins er. Sakborningi er boðið að tjá sig um það og hann er spurður um þau atriði sem lögregla telur að hafi þýðingu í málinu.

Það er misjafnt hvort tekin er ein skýrsla eða fleiri af sakborningi á meðan lögregla rannsakar málið. Skýrsla af sakborningi er hluti af rannsóknargögnum málsins.

Vitni

Lögregla tekur skýrslur af þeim vitnum sem talið er nauðsynlegt er að ræða við um atvik málsins. Slíkar skýrslutökur fara almennt fram á lögreglustöð eða í síma. Skýrslur sem teknar eru af vitnum við rannsókn lögreglu eru hluti af rannsóknargögnum málsins.

Þjónustuaðili

Ríkis­sak­sóknari

Ríkissaksóknari

Hafðu samband

Sími: 444 2900

Netfang: saksoknari@saksoknari.is

Opnun­ar­tími

Mánudaga til fimmtudaga er opið frá
9 til 12 og 13 til 15

Föstudaga er opið frá 9 til 12

Heim­il­is­fang

Suðurlandsbraut 4, 6. hæð

108 Reykjavík

Kennitala 530175-0229