Fara beint í efnið

ACG - Þarfavísitala heilsugæslustöðva og gæðaviðmið

Í fjármögnunarkerfi fyrir heilsugæslu er stuðst við aðferðafræði sem byggist á því að fjármagn til rekstrar hverrar heilsugæslustöðvar endurspegli þann sjúklingahóp sem viðkomandi stöð þjónar.

Að beiðni heilbrigðisráðuneytisins sér embætti landæknis um að reikna út fyrir hverja heilsugæslustöð nokkra af þeim þáttum sem lagðir eru til grundvallar í fjármögnunarkerfinu. Þessir þættir eru þyngdarstuðull, þarfavísitala, markhópur heilsueflandi móttöku og tiltekin gæðaviðmið og áhersluþættir.

Hér á eftir fer stutt lýsing á því hvað liggur að baki útreikningum, hvaða gögn eru notuð og hvernig þyngdarstuðull og afleidd þarfavísitala hverrar heilsugæslustöðvar er nýtt í fjármögnunarkerfinu. Auk þess er fjallað um hvert gæðaviðmið fyrir sig.

Þyngdarstuðull og þarfavísitala

Samkvæmt fjármögnunarlíkani er hluti af föstu fjármagni til rekstrar heilsugæslustöðva skipt eftir mati á sjúkdómabyrði einstaklinga.

Mat á sjúkdómabyrði einstaklinga, ACG flokkun

ACG (Adjusted Clinical Group) flokkunarkerfið flokkar einstaklinga eftir sjúkdómabyrði þeirra. Sjúkdómabyrðin er metin út frá aldri, kyni og þeim sjúkdómum sem einstaklingur hefur verið greindur með á tilteknu tímabili. Einstaklingarnir vega misþungt í flokkaranum eftir ólíkri samsetningu sjúkdómsgreininga.

Flokkunarkerfið og hugbúnaður til flokkunar var þróað af Johns Hopkins háskólanum í Baltimore í Bandaríkjunum og byggir á rannsóknum á sambandinu á milli sjúkómabyrði og notkunar á heilbrigðisþjónustu. Kerfið er víða notað til grundvallar útdeilingu fjármuna til heilsugæslu.

Gögn til flokkunar

Til þess að flokka einstaklinga samkvæmt ACG flokkunarkerfinu og meta sjúkdómabyrði þeirra eru notuð gögn úr einni af heilbrigðisskrám landlæknis, samskiptaskrá heilsugæslu. Í skrána berast gögn um samskipti frá öllum heilsugæslustöðvum landsins í samræmi við fyrirmæli landlæknis um lágmarksskráningu. Gögn frá heilsugæslustöðvum berast nú í rauntíma til embættisins.

ACG flokkarinn nýtir upplýsingar um sjúkdómsgreiningar (ICD-10) úr staðfestum samskiptaseðlum, sem skráðar hafa verið á einstaklinga síðustu 15 mánuði áður en útreikningar eru framkvæmdir. Til grundvallar ICD-10 greiningu einstaklinga verða að liggja fyrir samskipti heilsugæslustöðvar við einstaklinginn.

Ekki skiptir máli hvort greining er skráð einu sinni eða oftar á 15 mánaða tímabili eða hvort sjúkdómsgreiningin er skráð á þeirri heilsugæslustöð sem einstaklingurinn tilheyrir þegar útreikningur fer fram, eða annarri heilsugæslustöð. Þegar meira en 15 mánuðir eru frá síðustu skráningu sjúkdómsgreiningar tekur flokkarinn hana ekki lengur með í útreikninginn.

Miðað er við skráningu einstaklinga á heilsugæslustöðvar út frá upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands í lok hvers viðmiðunartíma. Ef einstaklingur flytur sig milli heilsugæslustöðva flytjast sjúkdómsgreiningar síðustu 15 mánaða með honum yfir á nýju stöðina.

Þyngdarstuðull, útkoma úr ACG flokkun

Reiknaður er ACG-stuðull fyrir hverja heilsugæslustöð og er hann byggður á meðaltali sjúkdómsbyrðar þeirra einstaklinga sem skráðir eru á stöðina. Þessi stuðull kallast þyngdarstuðull.

Þar sem stuðullinn byggir á þeim sjúkdómsgreiningum sem skráðar eru fyrir hvern einstakling sem tilheyrir viðkomandi heilsugæslustöð getur hann hækkað eða lækkað í samræmi við skráðar sjúkdómsgreiningar hvers tímabils. Því gefur þyngdarstuðull vísbendingu um breytingu á sjúkdómabyrði þeirra einstaklinga sem tilheyra hverri heilsugæslustöð.

Notkun þyngdarstuðuls í fjármögnunarkerfi

Áður en útreiknaður þyngdarstuðull heilsugæslustöðvar er notaður í fjármögnunarkerfi heilsugæslustöðva er hann jafnaður með þeim hætti að honum er deilt með meðaltalsstuðli einstaklinga og til verður þarfavísitala hverrar stöðvar. Vísitalan er reiknuð í sitthvoru lagi, annars vegar fyrir heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar fyrir heilsugæslustöðvar á landsbyggðinni.

Þyngdarstuðullinn er endurmetinn á mánaðarfresti og segir til um hversu hátt hlutfall fjármagns vegna þarfavísitölu er úthlutað á hverja stöð fyrir sig.

Gæðaviðmið og átaksverkefni

Hluti af breytilegu fjármagni sem úthlutað er til heilsugæslustöðva fer eftir stöðu hverrar stöðvar samkvæmt tilteknum gæðaviðmiðum og einu tilteknu átaksverkefni. Þessi gæðaviðmið voru í upphafi valin af velferðarráðuneytinu í samvinnu við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Viðmiðin voru valin með hliðsjón af gæðaviðmiðum sem notuð hafa verið í Svíþjóð þar sem þetta kerfi hefur verið í notkun í nokkur ár og þau aðlöguð að íslenskum veruleika. Til viðbótar vann starfshópur á vegum heilbrigðisráðuneytis að nýjum gæðaviðmiðum sem taka gildi á árunum 2023 og 2024. Gera má ráð fyrir því að gæðaviðmiðin geti breyst eftir því sem tíminn líður og eftir því hverjar áherslurnar eru hverju sinni.

Gögn

Við útreikninga á gæðaviðmiðum eru sem fyrr nýtt gögn úr samskiptaskrá heilsugæslu. Að auki eru upplýsingar um bólusetningar teknar úr bólusetningarskrá og stefnt að nýtingu gagna úr lyfjagagnagrunni landlæknis. Listi yfir skráða einstaklinga á hverri heilsugæslustöð er sendur mánaðarlega frá Sjúkratryggingum Íslands og miðar við stöðu skráninga í lok hvers mánaðar.

Ekki skiptir máli á hvaða heilsugæslustöð skráning sjúkdómsgreininga og úrlausna fer fram, heldur fylgja sjúkdómsgreiningar og úrlausnir einstaklingunum yfir á þá stöð þar sem þeir eru skráðir á hverju viðmiðunartímabili. Athuga skal þó að samkvæmt lýsingu skal yfirferð lyfjalista fara fram á heilsugæslustöð viðkomandi einstaklings.

Upplýsingar um mælingar berast af mælingarhluta allra samskiptaseðla. Upplýsingar um notkun á Heilsuveru byggja á tölfræði sem unnin er upp úr sjálfvirkri aðgerðaskrá úr Heilsuveru þar sem ópersónugreinanlegar upplýsingar vistast við allar aðgerðir notenda.

Þjónustuaðili

Embætti land­læknis