Fara beint í efnið

Styrkir til hugvitsmanna

Ár hvert veitir Samgöngustofa styrk/styrki til ýmissa rannsóknarverkefna sem tengjast öryggi skipa, atvinnusjómanna, farþega og búnaðar um borð í skipum sem og verkefna sem snúa að heilsusamlegu umhverfi sjófarenda. 

Gert er ráð fyrir að veita styrki til einstaklinga og/eða félaga sem koma með tillögur að lausnum í þessa átt. Heildarstyrkupphæðin hljóðar upp á 2.500.000 krónur að hámarki hvert ár og er öllum frjálst að sækja um. 

Umsókn skal senda á netfangið styrkur@samgongustofa.is og skal umsókninni fylgja útfyllt eyðublað sem finna má hér á Word formi og hér á pdf formi. Einnig skal fylgja greinargóð lýsing á verkefninu í heild sem og greinargerð fyrir því hvaða hluta verkefnisins styrkurinn mun nýtast í. Nánar má finna um styrkinn hér að neðan.

Umsóknarfrestur 2024 er til 15. maí
Styrkir til hugvitsmanna - veggspjald 2024

Markmið úthlutunar er:

  • Að veita styrki til verkefna sem stuðla að auknu öryggi sjófarenda.

  • Að styrkja alþjóðasamvinnu um slík verkefni.

  • Að veita styrki til hönnunar eða smíði frumgerðartækja og búnaðar sem líkleg eru til að auka öryggi sjófarenda og öryggi  í skipum.

  • Að veita styrki til sérstakra verkefna til eflingar fræðslu um öryggi sjófarenda.

Við úthlutun styrkja skal horft til þess að verkefni muni auka öryggi sjófarenda meðal annars með:

  • Öflun þekkingar og miðlun sem eflir öryggi sjófarenda.

  • Rannsóknum, þróun og samstarfi sem að þessu miðar.

  • Þróun tækni eða tækja sem líkleg eru til að auka öryggi.

Verklagsreglur um styrkveitingar

  1. Fé til úthlutunar er ákvarðað í verkefnisáætlun hvers árs, allt að 2,5 m.kr.

  2. Umsóknir eru auglýstar lausar til umsókna á heimsíðu Samgöngustofu og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis í apríl og er umsóknarfrestur fjórar vikur frá birtingu auglýsingar.

  3. Aðeins er veitt styrkjum í rannsóknar og þróunarverkefni sem varða öryggi sjófarenda.

  4. Meginregla við styrkveitingar skal vera að styrkur verði aldrei hærri en 75% af áætluðum kostnaði einstakra verkefna.

  5. Umsækjendur skulu skila umsóknum til Samgöngustofu á umsóknareyðublöðum á vef stofnunarinnar og fylgiskjölum. Í umsókninni skal koma fram nákvæm skýring á eðli og tilgangi verkefnis, kostnaðaráætlun og fjármögnun þess.

  6. Að umsóknarfresti liðnum skulu umsóknir lagðar fyrir Siglingaráð sem tekur umsóknirnar til umfjöllunar og afgreiðslu.

  7. Heimilt er að leita frekari umsagna um verkefni sé þess þörf.

  8. Heimilt er að sækja um framhaldsstyrk hafi verið skilað tilskyldum gögnum og sé sýnt fram á nauðsyn og ávinning af frekara framlagi.

 

Útgreiðsla styrkupphæða

  1. Styrkir skulu greiðast í þrennu lagi þ.e. þremur jöfnum eftir framvindu.

  2. Fyrsta greiðsla (1/3) styrkupphæðarinnar fer fram við upphaf verks.

  3. Önnur greiðsla (2/3) er innt af hendi þegar styrkþegi metur það svo, að verk sé hálfnað og sendir greinargerð eða áfangaskýrslu þar um til Samgöngustofu áður en önnur greiðsla styrks er innt af hendi. Samgöngustofa kynnir Siglingaráði framvinduna.

  4. Þriðja greiðsla (3/3) fer fram þegar styrkþegi hefur skilað lokaskýrslu um verkefnið og hún yfirfarin af Samgöngustofu og samþykkt af Siglingaráði.

  5. Niðurstöður og lokaskýrslur verkefna sem styrkt hafa verið af skulu öllum aðgengilegar.


Skilyrði fyrir útgreiðslu styrkja eru:

  1. Að fyrirliggjandi sé skrifleg staðfesting á að fjármögnun hafi gengið eftir samkvæmt umsókn.

  2. Að fyrirliggjandi sé skriflega staðfesting um að verk sé hafið.

 

Þjónustuaðili

Samgöngu­stofa