Fara beint í efnið

Öll ökutæki sem bera skráningarmerki með skoðunarmiða þarf að skoða reglulega á skoðunarstöð.

Ábyrgð á að fara með ökutæki til skoðunar liggur:

  • hjá skráðum umráðamanni, ef ökutæki hefur hann

  • annars ber eigandi þá ábyrgð.

Skoðunartími

Límmiði á númeraplötu ökutækis (skoðunarmiði) gefur til kynna næsta skoðunarár. Næsta skoðunarár fer meðal annars eftir aldri ökutækisins. Sem dæmi:

  • Venjulegir fólksbílar, sendibílar og bifhjól: Fyrsta skoðun eftir fjögur ár, svo á tveggja ára fresti í tvö skipti og loks árlega eftir það.

  • Stærri ökutæki, til dæmis hópbílar, vörubílar og eftirvagnar þeirra: Árleg skoðun

  • Fornökutæki og ferðavagnar: Skoðun á tveggja ára fresti

Síðasti tölustafur í númeraplötu ökutækis gefur til kynna skoðunarmánuð:

  • 1 er janúar

  • 2 er febrúar

  • 0 er október

  • bókstafur er maí

Fornökutæki, húsbifreiðir, ferðavagna (tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi) og öll bifhjól á að skoða í:

  • maí.

Þú getur farið með ökutækið í skoðun:

  • 6 mánuðum fyrir skoðunarmánuð og allt að 2 mánuðum eftir skoðunarmánuð.

  • hvenær sem er, fyrir skoðunarmánuð (innan almanaksárs) ef ökutækið fékk fullnaðarskoðun fyrir 1.nóvember árið áður.

Eftir það þarftu að greiða vanrækslugjald

Sérstakur frestur til skoðunar

Ekki hægt að fá frest til að færa ökutæki til skoðunar, nema ef eigandi ökutækis:

  • býr fjær en 80 kílómetra frá næstu skoðunarstofu og hafi ekki átt þess kost að færa ökutækið til skoðunar innan frests

þá getur eigandi fengið viðbótarfrest í 2 mánuði með því að fylla út beiðni um frestun. Beiðnin þarf að hafa borist áður en frestur til að skoða ökutækið rennur út.

Hætt við skoðun sem er byrjuð

Hægt er að hætta við byrjaða skoðun. Skoðunarstofa tilkynnir það til Samgöngustofu sem kannar ástæður þess að hætt var við skoðun og grípur mögulega til ráðstafana.

Niðurstaða skoðunar

Að lokinni skoðun færðu skoðunarvottorð. Þar kemur fram niðurstaða stoðunar sem getur verið:

  • án athugasemda

  • lagfæring

  • endurskoðun

  • akstursbann

Frestur til endurskoðunar

Séu gerðar athugasemdir við skoðun er veittur frestur til að:

Frestur er alltaf veittur til loka næsta mánaðar.

Áríðandi er að haga notkun ökutækis í samræmi við niðurstöðu skoðunar þar til fullnaðarviðgerð hefur farið fram.

Framlenging frests til endurskoðunar

Áður en útgefinn frestur til endurskoðunar rennur út þá hefur skoðunarstofa heimild til að framlengja frestinn um 30 daga ef

  • ekki er unnt að útvega varahluti til viðgerða á ökutæki eða

  • ekki er hægt að fá tíma fyrir ökutæki á verkstæði til viðgerðar.

Þjónustuaðili

Samgöngu­stofa