Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Vinnumálastofnun Forsíða
Vinnumálastofnun Forsíða

Vinnumálastofnun

Breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof

11. júlí 2025

Breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof

Þann 30. júní sl. samþykkti Alþingi tvö frumvörp til breytinga á lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 144/2020. Breytingarnar öðluðust gildi 1. júlí 2025 og eiga við um foreldra barna sem eiga rétt samkvæmt lögunum. Í því felst að breytingarnar eiga við um alla foreldra sem eiga ónýttan rétt innan fæðingarorlofskerfisins 1. júlí 2025 óháð því hvenær börn fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur.

Fjölburaforeldrar og veikindi á meðgöngu (lög nr. 37/2025):

Sameiginlegur réttur foreldra til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks er lengdur í sex mánuði fyrir hvert barn umfram eitt sem fæðist lifandi. Hið sama gildir um hvert barn umfram eitt sem foreldrar frumættleiða eða taka í varanlegt fóstur á sama tíma. Áður var þessi réttur þrír mánuðir.

Heimilt er að lengja fæðingarorlof eða fæðingarstyrk foreldris sem fætt hefur barn um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda foreldrisins í tengslum við meðgönguna enda verði veikindin rakin til meðgöngunnar og foreldrið hafi af þeim völdum verið ófært um að annast barn sitt í fæðingarorlofi. Áður var þessi réttur bundinn við það að veikindin mætti rekja til fæðingarinnar. Eftir breytinguna mun því hið sama gildi hvað varðar rétt foreldris sem fætt hefur barn til fæðingarorlofs hvort sem alvarleg veikindi foreldrisins eru rakin til meðgöngunnar eða fæðingarinnar þegar veikindin verða til þess að foreldrið er ófært um að annast barn sitt í fæðingarorlofi.

Störf á EES-svæðinu og þátttaka á innlendum vinnumarkaði (lög nr. 38/2025):

Kveðið er skýrar á um að til þátttöku foreldris á innlendum vinnumarkaði skuli teljast sá tími sem foreldri sem fær greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar hefur hætt atvinnuleit tímabundið vegna orlofs erlendis að því gefnu að ekki hafi liðið meira en tíu virkir dagar frá því að atvinnuleit var hætt þar til atvinnuleit hefur hafist að nýju samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, enda séu önnur skilyrði uppfyllt.

Þegar foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði skemur en fjóra mánuði á viðmiðunartímabili tekna skv. 1., 2. eða 3. mgr. 23. gr. en hefur starfað að hluta eða að öllu leyti í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, Norðurlandasamningnum um almannatryggingar, stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar á fyrrnefndu viðmiðunartímabili skal miða útreikning á meðaltali heildarlauna við þá almanaksmánuði sem foreldrið hefur starfað á innlendum vinnumarkaði eftir flutning til landsins fyrir fæðingarmánuð barns eða þann almanaksmánuð sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Foreldri skal í slíkum tilvikum láta tilskilin vottorð um áunnin starfstímabil og tryggingatímabil í öðru aðildarríki að framangreindum samningum fylgja með umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.